Nú liggja fyrir niðurstöður í árlegri könnun Gallup á viðhorfi íbúa á Íslandi gagnvart þjónustu sveitarfélaga. Mikill meirihluti íbúa Akureyrarbæjar er samkvæmt könnuninni frekar eða mjög ánægður með sveitarfélagið sem stað til að búa á.
Spurt er um 12 mismunandi málaflokka. Sá málaflokkur sem kemur best út hjá Akureyrarbæ er sorphirða en 84 prósent svarenda voru ánægð með þjónustu Akueyrarbæjar í tengslum við sorphirðu í sveitarfélaginu. Aðrir flokkar tengdir umhverfismálum komu einnig vel út eins og loftmengun og umhverfisvænar samgöngur, og eru íbúar yfir meðaltali ánægðir með þessa málaflokka.
Skipulagsmál bæjarins er sá málaflokkur sem kemur verst út úr könnuninni en 45 prósent svarenda lýstu yfir óánægju með skipulagsmál almennt á Akureyri. 30 prósent svarenda voru hvork ánægð né óánægð og 25 prósent voru ánægð.
„Niðurstöður varpa hins vegar ljósi á tækifæri til úrbóta á ýmsum sviðum. Á heildina litið stendur ánægja með þjónustu sveitarfélagsins í stað eða minnkar lítillega milli ára. Mikilvægt er að fá fram sjónarmið íbúa svo hægt sé að bregðast við og gera betur til þess að auka ánægju með þjónustuna. Bæjarráð tók könnunina fyrir í gær og beindi því til sviða og ráða að taka niðurstöður til umfjöllunar og úrvinnslu,“ segir í tilkynningu Akureyrarbæjar.
Hér er hægt að skoða niðurstöður könnunarinnar.
Hér er hægt að skoða niðurstöður sem snúa að umhverfismálum.
UMMÆLI