NTC

Merkja boli og hanna vefsíður fyrir norðlensk fyrirtækiBirgir til vinstri, Kristófer til hægri. Ljósmynd: RFJ

Merkja boli og hanna vefsíður fyrir norðlensk fyrirtæki

Frændurnir Birgir Trausti Friðriksson og Kristófer Arnþórsson hafa undanfarna mánuði rekið saman fyrirtækið Herrabyte ehf. sem stofnað var af Kristófer og tveim öðrum aðilum árið 2022.

Að sögn Kristófers er um að ræða ákveðinn „athyglisbrestsrekstur,“ en strákarnir taka að sér virkilega fjölbreytt verkefni. Fyrirtækinu er hægt að skipta í tvennt, í Prenthaus og Herrabyte. Prenthaus armur fyrirtækisins var stofnað í september á nýliðnu ári og merkir hinn ýmsa fatnað, til að mynda jakka, boli, buxur og derhúfur fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Herrabyte er aftur á móti netfyrirtæki sem sér um að hanna vefsíður og sjá um þær fyrir ýmisleg fyrirtæki, auk þess að halda utan um stóra Facebook hópa. Þar að auki taka drengirnir að sér ýmis tilfallandi verkefni líkt og að færa VHS spólur yfir á stafrænt form, laga gamlar leikjatölvur og fleira.

Viðskiptavinir Herrabyte og Prenthaus eru nær allir norðlensk fyrirtæki og einstaklingar og segja Kristófer og Birgir að viðskiptavinir þeirra kunni sérstaklega að meta að sækja þjónustu sem þeirra í heimabyggð.

Kristófer segir að markmið fyrirtækjanna þeirra sé að hjálpa öðrum frumkvöðlum á Norðurlandi að komast af stað, það séu svo ótrúlega margir sem séu með góðar hugmyndir og hæfileika sem eiga skilið að fá að skína, en það geti ekki allir verið góðir í öllu. Margir af viðskiptavinum þeirra segir hann að séu fyrirtæki sem eru að stíga sín fyrstu skref og komi til þeirra fyrir aðstoð við tæknilega hlutann sem og að gíra sig upp með merktum vinnufatnaði.

Fyrirtækið Herrabyte ehf. er í samstarfi við Kaffið.is.

Sambíó

UMMÆLI