NTC

Mér líður illa

Jónas Björgvin Sigurbersson skrifar:

Ég held óhjákvæmilega að allir þeir sem lesi þetta blað hafi á einn eða annan hátt komið nálægt íþróttum allt sitt líf hvort sem það var að styðja einhvern, eitthvað lið eða stunda hana sjálfir. Margar af mínum allra bestu minningum sem munu varðveitast um ókomna tíð átti ég með mínum samferðabræðrum í gegnum fótboltann. Ég var rosalega kappsamur metnaðarfullur ungur strákur sem leyfði sér að gráta oft og mörgum sinnum í gegnum ferilinn. Ég leyfði mér oft og mörgum sinnum að gráta þegar vindar blésu á móti eða jafnvel bara meiddi mig.

Tíminn leið og áður en ég vissi af var kominn mikil alvara í þetta sem áður var bara gleði og grátur. Ég gat ekki leyft strákunum að sjá ég gréti enda upplifði ég að það væri einskonar tákn um vanmátt, innst inni var ég samt ennþá sami metnaðarfulli vælukjóinn sem gerði allt til þess að reyna vinna. Á þessum tíma var það eina sem skipti máli að spila fótbolta, fara á æfingu, koma heim og beint út á sparkvöll.

Ég held ég hafi verið hausverkur margra þjálfara þar sem ég átti ofboðslega erfitt með að hemja tilfinningarnar mínar og braust það út í slæmri hegðun þegar illa gekk. Svo ótal margir hafa sagt mér að ég verði að hemja skapið og þá verði mér allir vegir færir og sú gamla tugga, svo ofboðslega mörg atriði hvað ég verði að gera betur frá hinum ýmsu aðilum.

Í kringum tvítugsaldurinn fór þetta að breytast allt í einu voru komnar miklu fleiri tilfinningar í spilið og aðrir þættir sem hafa áhrif á frammistöðuna sem maður er jú, metinn af. Gleði og grátur voru nú kominn í hóp með vanlíðan, vellíðan, reiði, pirring, vanmætti, óánægju, ánægju o.fl tilfiningum. Mitt fyrsta svar við þessu var að reyna fela þær, því ég þarf að vinna í hausnum á mér til þess að mér verði allir vegir færir, ekki satt? Ég má ekki láta nokkurn mann sjá að mér líði illa, ég þarf að mæta með kassann út og brosið á.

Ég misstíg mig í leik og er skipt útaf í hálfleik í fyrsta leik Íslandsmótsins 2015 sennilega illa tognaður á hægri ökkla. Fyrsta skrefið er að kæla, síðan kíkja til sjúkraþjálfara til að komast að því hvað er að hrjá mann til þess að vera klár í næsta leik. Mig langaði samt ekki að mæta á æfingar, mér kveið fyrir leikjum því upplifði mikla pressu um að standa mig og alltaf spilaði ég. Stærsta sárið mitt var á sjálfsmyndinni sem var nú einungis viðtækileg niðurbrjótandi upplýsingum.

Til að gera langa sögu stutta þá leið mér ömurlega sem hafði miklu meiri áhrif á frammistöðuna í leikjunum heldur en að vera drepast í ökklanum.  Ég kunni að hlúa að öllu alheimsins vanda sem snéri að mér líkamlega og fæ ég aðstoð við það frá klúbbnum og sjúkraþjálfara. Vandamálið mitt var orðið stærra en að bara gráta fá knús frá mömmu og halda áfram, ég sem hafði lært að bæla tilfinningarnar þurfti að standa frammi fyrir þjálfaranum og fyrirliðanum og segja það væri ekki allt í lagi.

Frá þeim tímapunkti fóru segl að snúast og fékk ég vindinn í bakið í þetta sinn. Ég vill að hver einn og einasti sem lesi þetta verði sá stuðningur sem hann þarf að vera fyrir sinn Þórsara, hjálpi þeim að blómstra og takast á við hin ýmsu vandamál innan íþróttanna.

Jónas Björgvin Sigurbergsson

#DFK

Greinnin birtist upphaflega í Vertíðarlokum Þórs

Sambíó

UMMÆLI