Ágæti lesandi.
Mig langar að biðja þig um lítinn greiða. Lestu sjálf(ur) alla greinina til enda, veltu viðfangsefninu virkilega vel fyrir þér frá öllum hliðum og myndaðu þér skoðun út frá því.
Lið frá Akureyri er Íslandsmeistari í meistaraflokki kvenna í knattspyrnu undir nafni Þórs/KA. Lið frá Akureyri er Íslands- og bikarmeistari í 2. flokki kvenna í knattspyrnu undir nafni Þórs/KA/Hamranna. Ég veit ekki um neinn Akureyring sem ekki finnst þetta meiriháttar og magnað hjá stelpunum, þjálfurunum og öðrum sem standa að þessum liðum. Þessi árangur hefur vakið athygli og liðið á sér áhangendur um allt land og reyndar langt út fyrir landsteinana.
Stuðningur við liðin hefur verið meiriháttar, bæði utan og innan vallar. Hjá flestum.
Ómögulegt án velvilja og stuðnings
Kvennaráðið hjá Þór/KA mætir miklum velvilja þegar kemur að fjármögnun og rekstri liðsins, margir vilja styðja liðið á margvíslegan hátt, með fjárframlögum, varningi, þjónustu o.s.frv. Fyrir þetta ber að þakka. Til að fá hugmynd um stuðninginn þarf ekki annað en að skoða auglýsingar frá Þór/KA í Dagskránni eða fletta dagatalinu sem kom út í lok liðins árs.
Árangur eins og náðist í sumar væri hreint út sagt ómögulegur og óhugsandi án alls þessa stuðnings.
Þar fyrir utan vinna kvennaráðið, stelpurnar og ættingjar þeirra að alls konar fjáröflunarverkefnum, sölu, þrifum og fleiru. Sem dæmi um þá elju sem fólk sýnir má nefna að þremur dögum eftir að stelpurnar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í haust voru þær mættar í Nettó í Hrísalundi í vörutalningu, Nettó á Glerártorgi kvöldið eftir og svo BYKO síðar í sömu viku, á sama tíma og kvennaráðið og aðstandendur unnu í þrjá til fjóra tíma á dag alla vikuna við að þrífa íbúðir. Í flestum tilvikum var þessi vinna innt af hendi að loknum löngum skóla- eða vinnudegi.
Þrátt fyrir mikla vinnu og frábæran árangur eru til þeir Akureyringar sem sýna sig á leikjum og virðast stuðningsmenn, gaspra um árangurinn og slá sér á brjóst, án þess að hugur fylgi máli. Já, ég er að tala um þá sem neita að láta Þór/KA njóta þeirra fjármuna sem þeim ber.
Óvinsæll boðberi óþægilegra upplýsinga
Mér skilst að ég hafi komið við kauninn á einhverjum með kröftugu orðalagi í fyrri skrifum mínum. Það verður bara að hafa það. Ef lesendur finna hjá sér þörf til að vera í nöp við boðbera óþægilegra upplýsinga þá skal ég alveg taka á mig að vera sá boðberi. En það er ekki afsökun fyrir því að hunsa grundvallaratriði málsins og gera orðalag mitt að aðalatriði. Með þannig viðbrögðum er reynt að þegja aðalatriði málsins í hel. En það má ekki þegja. Ég ætla að halda áfram að benda á þetta óréttlæti þangað til það hefur verið leiðrétt.
Enn hefur enginn hrakið þær upplýsingar sem ég kom fram með um útreikning á UEFA-framlaginu og rökin fyrir því að þessar krónur skuli fara áfram til Þórs/KA en ekki inn í rekstur eða framkvæmdir annað hvort hjá Þór eða K.A. Enginn hefur sýnt fram á að það sé rétt af knattspyrnudeild K.A. að koma þessum peningum ekki áfram til Þórs/KA.
Tölurnar hafa ekkert breyst (nema þá að við setjumst niður og reiknum dráttarvexti). Hluti af framlögum til Þórs (2.243.000) og K.A. (2.009.000) er til orðinn og reiknaður út vegna tilvistar og árangurs Þórs/KA. Um það er ekki deilt. Engu að síður ákvað annað félagið að Þór/KA ætti ekki að fá þennan hlut á meðan hitt millifærði strax.
Upprifjun á fáránleikanum
Til upprifjunar á fáránleikanum langar mig að minna ykkur á það sem margir tala um sem bætur vegna fækkunar áhorfenda (og nota m.a. sem rök að áhorfendum á leiki Þórs/KA hafi ekki fækkað frá 2015 til 2016), en heitir í raun, samkvæmt frétt á ksi.is, úthlutun „vegna markaðsáhrifa Evrópumótsins“. Liðin sem þá voru í Inkasso-deild karla (Þór og K.A. þar á meðal) fengu tvær milljónir hvert og liðin í Pepsi-deild kvenna (Þór/KA þar á meðal) áttu að fá eina milljón. En þessi eina milljón fór þó ekki í upphafi til Þórs/KA heldur að hálfu leyti til Þórs og hálfu til K.A. Knattspyrnudeild Þórs skilaði þessari hálfu milljón áfram til Þórs/KA, en það gerði knattspyrnudeild K.A. ekki. Hvað þýðir það? Einfaldlega að liðin sem voru í Inkasso-deild karla 2016 fengu tvær milljónir hvert, nema K.A. sem fékk tvær og hálfa. Það þýðir líka að liðin í Pepsi-deild kvenna fengu eina milljón hvert, nema Þór/KA, sem fékk hálfa.
Ég skil ekki hvernig þeir sem eru ábyrgir fyrir þessu geta með góðri samvisku mætt á leiki hjá Þór/KA og látið eins og þeir séu að klappa liðinu í lófa á meðan hendurnar eru í vösunum að fitla við þessa fjármuni.
Ég hef bent á það áður að ef menn ætla að halda þessum peningum frá Þór/KA á þeim grundvelli að áhorfendum hafi ekki fækkað þá sé niðurstaðan einfaldlega sú að Þór og K.A. hljóti að skila þessari milljón aftur til KSÍ. Þar fyrir utan geta „markaðstengd áhrif“ komið fram í ýmsu öðru en fjölda áhorfenda á leikjum. Ég ítreka einnig að það var stjórn KSÍ sem ákvað þetta markaðsframlag sem fasta upphæð á lið eftir deildum, mismunandi eftir deildum, en ekki mismunandi eftir því hvort eða hve mikið áhorfendum fækkaði á einstökum leikjum eða hjá einstökum liðum vegna EM. Hve erfitt getur verið að skilja þetta?
Hvaðan kom hvatinn til að skipta framlaginu?
Þegar UEFA-framlagið kom frá KSÍ undir lok árs 2016 lagði knattspyrnudeild Þórs 2.243.000 krónur inn á bankareikning Þórs/KA, en knattspyrnudeild K.A. hélt 2.009.000 krónum. Þór hefur í mörg undanfarin ár einnig komið hluta af styrk KSÍ vegna barna- og unglingastarfs áfram til Þórs/KA vegna 2. flokks kvenna, en það hafði knattspyrnudeild K.A. ekki gert þrátt fyrir að 2. flokkur kvenna sé undir hatti Þórs/KA en ekki K.A.
En nú ber nýrra við. Mér skilst að unglingaráð knattspyrnudeildar K.A. hafi greitt hluta af styrk frá KSÍ fyrir barna- og unglingastarf áfram til Þórs/KA vegna ársins 2017. Ég hef ekki lesið samstarfssamning félaganna og veit því ekki nákvæmlega hvernig um þetta framlag er fjallað þar, en mögulega hefur greiðslan fyrir 2017 tekið mið af því sem sem fram kemur í samningnum.
Þar er einn björninn unninn, eitt skref fram á við. En athugið eitt. Með því að þetta er tekið inn í samning og með því að hluti þessa framlags er greiddur frá unglingaráði knattspyrnudeildar K.A. til Þórs/KA er þar með viðurkennt að þannig hefði það alltaf átt að vera, allan tímann sem Þór/KA hefur rekið 2. flokk og styrkur hefur komið frá KSÍ vegna barna- og unglingastarfs. En samt gott ef þessi hluti málsins er kominn á hreint upp á framtíðina, þótt fortíðin sé enn óuppgerð.
Stundum og stundum ekki?
Þór/KA hefur náð frábærum árangri undanfarinn áratug og þar af leiðandi fengið verðlaunafé frá KSÍ. Eftir því sem ég kemst næst hefur verðlaunafé á undanförnum árum ekki verið skipt niður á félögin, heldur hefur heildarupphæðin endað inni á reikningi hjá Þór/KA. Það er fullkomlega eðlilegt.
Ef rétt er að þetta fyrirkomulag hafi verið viðhaft með verðlaunafé á undanförnum árum er enn óskiljanlegra af hvaða ástæðu greiðslufyrirkomulagið breyttist þegar UEFA-framlagið barst í lok árs 2016. Hvaðan kom hvatning til að breyta aðferðinni? Hver ákvað þetta? Hvers vegna? Enn og aftur beini ég orðum mínum til formanns, framkvæmdastjóra og stjórnar KSÍ. Hver eða hverjir eiga hér hlut að máli og hvers vegna?
Að minnsta kosti siðlaust
Nú má vera að KSÍ hafi lúffað og/eða gefið út einhvers konar (þegjandi eða ekki þegjandi) samþykki fyrir því að félögin ráði hvort þau komi þessum fjármunum áfram inn í starfið hjá Þór/KA. Það hefur þó hvergi komið fram opinberlega. Það er engu að síður algjörlega fráleitt að haga þessum málum eins og gert hefur verið. Ef það er ekki ólöglegt að svelta Þór/KA er það að minnsta kosti í hæsta máta siðlaust og óeðlilegt. Vel má vera að lögfræðingar á vegum KSÍ og/eða K.A. geti fundið út einhverja krókaleið og göt á reglum til að réttlæta þessa ráðstöfun, en ef félögunum er í alvöru annt um knattspyrnulið Þórs/KA og Þórs/KA/Hamranna í meistaraflokki og 2. flokki kvenna ætti það ekki að skipta neinu máli.
Það sjá allir hve siðlaus þessi framkvæmd er hjá knattspyrnudeild K.A. Það sjá allir hve ömurleg þessi framkoma er gagnvart stelpunum sjálfum og þeim sem starfa í sjálfboðavinnu við að reka þetta batterí. Finnst einhverjum í alvöru að fólkið sem starfar í kvennaráðinu og stelpurnar, stolt Akureyrar, stolt Eyjafjarðar, stolt landsbyggðarinnar, eigi skilið svona framkomu frá öðru félaginu sem stendur að liðinu?
Ekki samþykkja, ekki þegja, ekki vera sama!
Þið sem lesið þetta til enda, hvort sem þið eruð stuðningsmenn Þórs/KA eða ekki, hvort sem þið eruð það í orði eða í verki, annað, bæði eða hvorugt, getið uppnefnt mig eins og þið viljið. Mér er sama um það.
En endilega látið það ekki bitna á stelpunum okkar, dætrum Akureyrar. Með því að samþykkja, með orðum eða þegjandi, þann gjörning að knattspyrnudeild K.A. haldi þessum fjármunum fyrir sig eruð þið að segja: „Okkur er sama um stelpurnar okkar.“ Það er virkilega vond afstaða. Mér er ekki sama. Þess vegna þori ég að koma fram og benda á þetta óréttlæti sem stelpurnar hafa verið beittar. Og ítreka það. Ég stend hér með upp aftur og bendi á þetta óréttlæti. Það má ekki hverfa í þögn, það má ekki gleymast.
Greinin er aðsend.
Sjá einnig:
UMMÆLI