NTC

Menningarsamningur við Akureyrarbæ

Menningarsamningur milli Akureyrarbæjar og mennta- og menningarmálaráðuneytis var undirritaður í dag. Meginmarkmið samningsins er að efla hlutverk Akureyrar í lista- og menningarlífi á Íslandi og stuðla að auknu atvinnustarfi í listum í bænum. Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra menningarmála, og Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri handsöluðu samninginn.

„Með því að styrkja innviði sem tengjast öflugu og fjölbreyttu menningarstarfi fyrir íbúa, listafólk og gesti á svæðinu viljum við stuðla að eflingu byggða og auknum lífsgæðum,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra af þessu tilefni. „Menningarstefna okkar leggur áherslu á árangursríkt samstarf við sveitarfélög á sviði menningarmála og það er gleðilegt að geta í dag endurnýjað samstarfið við Akureyrarbæ sem sannarlega státar af fjölbreyttu menningarlífi.“

Samningurinn nær til reksturs Leikfélags Akureyrar, Listasafns Akureyrar, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Menningarhússins Hofs. Árlegt framlag ráðuneytisins er áætlað um 195 milljónir kr. á verðlagi þessa árs en fjárhæð samningsins verður endurskoðuð við undirbúning fjárlaga á samningstímanum.

Samningurinn er nú endurnýjaður til þriggja ára en menningarsamstarfið teygir sig aftur til ársins 1996.

Sambíó

UMMÆLI