NTC

Menningardagskrá í Hofi til heiðurs Árna Magnússyni

Í dag verður nóg að gera í Hofi. Haldin verður menningadagskrá til heiðurs Árna Magnússyni, mesta handritasafnara Íslands á afmælisdegi hans, 13. nóvember. Dagskráin er ansi vegleg, meðal annars mun Arnar Már Arngrímsson lesa upp úr verðlauna bók sinni Sölvasögu unglings. Dagskráin hefst klukkan fimm í Hamra salnum í Hofi. Hana má sjá í heild hér:

Árni Magnússon á gamla 100 krónu seðlinum.

Árni Magnússon á gamla 100 krónu seðlinum.

Dagskrá:

15-17:

Þjóðfræðingarnir Rósa Þorsteinsdóttir og Gísli Sigurðsson munu segja frá og svara fyrirspurnum um söfnun, skráningu, rannsóknir og miðlun á þjóðfræðisviði stofnunarinnar, sýna og skýra opinn aðgang að hljóðsafni stofnunarinnar í gegnum ismus.is og kynna nokkrar útgáfur (bækur, hljóðdiska og netbirtingu) byggðar á hljóðsafninu. Kvæðakonur skjóta upp kollinum.

 

Íslenskt orðanet lýsir íslenskum orðaforða og innra samhengi hans. Það byggist á víðtækri greiningu á merkingarvenslum orða og orðasambanda og sameinar hlutverk samheita- og hugtakaorðabókar. Jón Hilmar Jónsson og Bjarki Karlsson skýra hvernig Orðanetið kemur að hagnýtum notum við ritun og textagerð, hvort sem er í námi, leik eða starfi.

 

Icelandiconline.com er nýtt, ókeypis íslenskunámskeið fyrir innflytjendur. Það er hannað fyrir snjallsíma og spjaldtölvur og getur reynst lykill að daglegu lífi á Íslandi. Með þessari nýjung gefst tækifæri til að læra íslensku hvar og hvenær sem er. Úlfar Bragason og Kolbrún Friðriksdóttir verða áhugasömum innan handar en mælt er með að fólk taki snjallsíma sína með sér.

 

Skrifarastofa í umsjá Svanhildar Maríu Gunnarsdóttur verður á staðnum er þar verður hægt að tylla sér og setja sig í spor handritaskrifara miðalda; munda fjaðurpenna, dýfa í heimalagað blek og rita á bókfell. Bæði börn og fullorðnir hafa mikla ánægju af slíku.

 

Barnabókasetur í umsjá Brynhildar Þórarinsdóttur sýnir dæmi um handrit að nútímabarnabók. Hvernig sér höfundurinn fyrir sér að verkið muni líta út? Hversu margar skissur þarf að gera áður en menn sættast á lokaútkomu?

Arnar Már Arngrímsson sem nýverið hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir Sölvasögu unglings les úr verkinu kl. 15 og 16.

Sjá einnig: Arnar Már hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

kl 17

Pappírshandrit hækka í verði – ný viðhorf í handritarannsóknum,

Í fyrirlestrinum verður fjallað um íslensk pappírshandrit og nýjar rannsóknir tengdar þeim. Síðari alda handrit eru flest rituð á pappír og hafa löngum þótt minna virði en gömlu skinnhandritin. Á síðustu áratugum hafa róttækar breytingar orðið á viðhorfum fræðimanna til handritarannsókna. Í stað þess að skoða handrit einkum í þeim tilgangi að finna upprunalegan texta er lögð áhersla á að hvert handrit er heimur út af fyrir sig, hvort sem það er ungt eða gamalt, það er smíðisgripur ­– stundum handaverk listamanna – sem getur varpað ljósi á líf og störf þeirra sem bjuggu það til, skrifuðu og myndskreyttu, og þeirra sem lásu það eða notuðu á annan hátt sér til skemmtunar, fróðleiks eða andlegrar upplyftingar. Eins og nýyrðið „handritamenning“ gefur til kynna geta handrit verið ómetanleg heimild um mannlíf og menningu fyrr á öldum.

Fyrirlesari: Margrét Eggertsdóttir.

Á undan fyrirlestrinum, frá kl. 15, verður ýmislegt í boði fyrir unga sem aldna í Hamragili. Starfsfólk stofnunar Árna Magnússonar setur upp skrifara-stofu, þar sem hægt verður að setja sig í spor miðaldaskrifara, dýfa fjaðurpenna í heimatilbúið blek og rita á skinn. Einnig verður hægt að skoða handrit að barnabók úr nútímanum. Íslenskukennsluforritið Icelandic Online verður kynnt, en það er nú aðgengilegt og gjaldfrjálst á netinu. Barnabókasetur Íslands sýnir dæmi um handrit að nútímabarnabók. Arnar Már Arngrímsson, handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Sölvasögu unglings, les úr bók sinni kl 15 og 16.

Þeir sem unna orðsins listum ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í Hofi á fæðingardegi Árna Magnússonar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó