„Menn eru klikkaðir í sínu áhugamáli!“ – Haraldur Ólafsson er nýkrýndur Evrópumeistari í uppstoppun fiska

Haraldur nýtitlaður Evrópumeistari. Mynd: Sonja Haraldsdóttir.

Haraldur Ólafsson stóð sig einstaklega vel á nýafstöðnu Evrópumeistaramóti í uppstoppun sem haldið var í Salzburg í febrúar sl. Haraldur stóð uppi sem sigurvegari í sínum flokki, uppstoppun fiska, og nældi sér því í titillinn Evrópumeistari í uppstoppun.
Keppnin var einstaklega hörð þetta árið þar sem 253 keppendur tóku þátt frá 34 löndum með alls 351 verk í keppninni. Þetta er besti árangur sem Íslendingur hefur náð á Evrópumótinu í uppstoppun og titillinn mjög stór á heimsvísu innan uppstoppunarheimsins.

400-450 klukkustunda verk!
Haraldur keppti með tvo fiska á mótinu en annar þeirra tryggði honum verðlaunin. Haraldur segir mikinn tíma fara í vinnuna sem liggur á bak við þetta, enda mikið nákvæmnisverk. Það þarf að stoppa upp fiskinn sjálfan, búa til undirstöður og finna listræna útsetningu sem vekur áhuga fólks á verkinu.
„Ég hef aldrei tekið nákvæmlega tímann á þessu en ég gæti ímyndað mér að þetta liggi í svona 200-250 tímum á hvern fisk þannig að þessir tveir hafa tekið í kringum 400-450 klukkustundir. Ég vann þessa fiska mína fyrir tveimur og þremur árum,“ segir Haraldur en hann hafði ákveðið eftir síðasta mót, fyrir sex árum, að hreinlega hætta að keppa. Konan hans, Erna Arnardóttir, hvatti hann þó til þess að halda áfram og vinna fiskana fyrir næsta mót tímanlega.
„Ég fór eftir ráðleggingum Ernu minnar, í stað þess að vinna fiskana á síðustu mánuðum fyrir mótið stakk hún upp á því að vinna þetta fram í tímann. Nú væru fjögur ár í næsta mót. Þannig að ég tók bara sumrin í þetta og þannig varð þetta í rauninni þriggja ára tímabil, miklu gáfulegra en að vera keyra þetta á fullu síðustu mánuðina fyrir mót,“ segir Haraldur.

Urriði var annar tveggja fiskanna sem Haraldur keppti með og sá sem vann titilinn með 90 stigum. Mynd: Erna Arnarsdóttir.

Keppendur þurfa lágmark 90 stig til að fá einhver verðlaun
Þegar keppt er á Evrópumóti, sem og öðrum mótum í uppstoppun, getur farið svo að enginn sigurvegari sé valinn. Keppt er í tveimur flokkum, keppni meistara og keppni fagmanna. Aðeins í keppni meistara geta keppendur unnið til Evrópumeistaratitla. Sett eru þau skilyrði að ef verkið fær undir 90 stig af 100 mögulegum getur það ekki unnið til verðlauna.
„Það er ekkert besti fiskurinn valinn í hvert skipti, heldur verður besti fiskurinn á svæðinu að fá 90 stig af 100 mögulegum til þess að eiga möguleika á meistaratitli. Oftar en ekki hef ég verið með 88. Á heimsmeistaramóti í Salzburg fyrir 6 árum fékk ég t.d. 88 stig en engan titil og enginn titill veittur í það skipti. Ég var mjög glaður að landa þessu núna með 90 stigum og hljóta Evrópumeistaratitilinn,“ segir Haraldur en fiskurinn hans var sá eini sem fékk verðlaun í flokknum. Eins og áður sagði keppti hann með tvo en fékk ekkert fyrir hinn, sá fiskur hlaut „aðeins“ 88 stig og vantaði því 2 stig upp á titil.

Laxinn vann ekki til verðlauna en rauður borði merkir 80-90 stig. Hann fékk 88 stig. Mynd: Erna Arnardóttir.

Úr lyftingum í veiði og svo uppstoppun
„Ég er verulega ofvirkur einstaklingur og þarf að hafa nóg að gera og eiga mér áhugamál. Einhvern veginn eru áhugamálin hjá mér þannig að þau skipa fyrsta sess í lífinu í hvert skipti,“ segir Haraldur sem leggur sig allan fram í áhugamálin en á sínum yngri árum keppti hann mikið í ólympískum lyftingum og varð m.a. þrívegis Norðurlandameistari. Hann hætti síðar í lyftingum vegna meiðsla og var ekki lengi að finna sér annað áhugamál. „Svo fann ég veiðina og þá veiddi ég bara hverja einustu helgi í mörg ár. Þar kynntist ég manni sem var að stoppa upp fugla, Sigurði Guðmundssyni, og hann kveikti svona áhugann á þessu. Þó var ég búinn að hafa áhuga mjög lengi á uppstoppuðum dýrum.“

„Besti skólinn sem ég fékk var að keppa“
Haraldur hefur unnið meira og minna í uppstoppun síðastliðin 20 ár og segir sig hafa dregið mestan lærdóm af því að keppa á mótum um allan heim á þessum árum. Haraldur fór á sitt fyrsta mót árið 2000 og ekki hefur alltaf gengið jafn vel og nú.
„Besti skólinn sem ég fékk var að keppa. Þar eru stykkin tekin algjörlega í gegn hjá þér og manni er ekkert klappað á bakið þegar verið er að dæma þau. Allt rangt er talið upp og hreinlega sagt ef þetta er ekki nógu gott hjá manni. Maður hefur fengið misgóða dóma,“ segir Haraldur en það getur margt klikkað í svona miklu nákvæmisverki. Flutningur fiskanna hans til Salzburg gekk vel en þegar á staðinn var komið gekk ekki allt eftir til að byrja með.

Fjórar klukkustundir að festa fiskinn á undirstöðuna á keppnisstað
Eftir að hafa unnið við fiskana í það sem samsvarar rúmlega tveimur mánuðum í fullri vinnu, taka síðan verkið í sundur, pakka öllu saman í kassa og flytja til Austurríkis átti Haraldur bara eftir að festa fiskana á undirstöður sínar á keppnisdaginn sjálfan. Þá vildi annar fiskanna ekki festast á stöngina.
„Ég held að límið sem ég var með hafi verið eitthvað gallað eða þá að ég gerði eitthvað vitlaust. Ég lenti í svaka veseni, límið bara greip ekki neitt. Það tók góða fjóra tíma að drösla fisknum á járnstöngina sem ég var með. Á síðustu stundu má segja,“ segir Haraldur en allt tókst þetta að lokum með þeim glæsilega árangri sem raun ber vitni.

Að festa fiskinn við undirstöðuna á keppnisstað. Mikið nákvæmisverk. Mynd: Erna Arnardóttir.

Talað um uppstoppun í heila viku!
Dómarar taka sér 2-3 daga til að skoða verkin gaumgæfilega og gefa stig enda nokkur hundruð verk sem kepptu á mótinu. Á meðan beðið er eftir niðurstöðum geta keppendur sótt alls konar námskeið og fyrirlestra, m.a. geta þeir fylgst með uppstoppun á framandi dýrum eins og ljónum o.fl.
Erna, kona Haraldar, hefur yfirleitt farið út með honum sem sérlegur aðstoðarmaður sem hann segir ómetanlegt. Það er mikil og þétt dagskrá sem fylgir þessu en Haraldur segir þetta þó vera mjög skemmtilegt.
„Menn eru klikkaðir í sínu áhugamáli, það er ekki talað um annað en uppstoppun allan tímann. Maður er bara í heila viku og talar ekki um annað en uppstoppun, fer varla heim á hótelið nema bara yfir blánóttina. Í ár ákváðum við að breyta til og vera nánast ekki neitt á keppnisstað heldur bara njóta borgarinnar. Ég held að það hafi bara gert mér gott,“ segir Haraldur.

Mjög fáir uppstopparar á Íslandi 
Það eru alls ekki margir uppstopparar á Íslandi. Haraldur minnist þess að þeir hafi þrír verið í þessu fyrir norðan þegar hann byrjaði í bransanum en núna er hann einn í þessu á Akureyri.
„Það hefur ekki verið mikil endurnýjun á þessu sviði. Ég hef verið svolítið einn í þessu á Akureyri. Það er svo margt sem spilar inn í. Öll efni í kringum þetta eru mjög dýr en maður þarf að kaupa flest allt að utan,“ segir hann og telur það vera eina ástæðu þess að ekki fleiri sækist í þennan geira.
Hann segir jafnframt að þetta sé mikil nákvæmnisvinna og að mikill tími fari í þetta. Haraldur er samt alsæll með Evrópumeistaratitilinn og aldrei að vita nema hann skelli sér í enn eina keppnisferðina til Bandaríkjanna á heimsmeistaramótið næst…

Viðtalið við Harald birtist upphaflega í fréttablaðinu Norðurlandi 8. mars.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó