NTC

Mengaður Eyjafjörður – girðum okkur í brók

Jón Ingi Cæsarsson skrifar:

Fyrir rúmum 20 árum var Pollurinn og innanverður Eyjafjörður mjög mengaður af skolpi.

Holræsi í tugatali fluttu gríðarlegt magn úrgangs beint úr salernum bæjarbúa í Polinn. Æskuminningar okkar krakkanna á Oddeyri litast nokkuð af þeim óþverra og mengun sem voru sýnilegar á fjörum á sunnanverðri Eyrinni alla daga, allan ársins hring.

Upp úr 1990 var farið að huga að því að koma skolpinu burtu frá Pollinum og leiða það á einn stað norðan Sandgerðisbótar, sunnan Krossaness.

Þetta hefur tekist og mengun í Pollinum og við strendur sunnan Oddeyrar er hverfandi þó fullnaðarsigur hafi ekki unnist.

Kræklingur sést á ný og greinilegt að vel hefur tekist til.

En lokahnykkinn vantar og það hefur dregist úr hömlu að ljúka þessu verki.

Það vantar að hreinsa, allt skolp og úrgangur fer algjörlega óhreinsaður í Eyjafjörðinn út af Sandgerðisbótinni.

Mælingar sýna að sjór er mjög mengaður saurgerlum sunnan Krossaness, að Glerárósum enda er þarna innstraumur og mælingar sýna þarna mjög há gildi.

Heilbrigðisfulltrúi tilkynnti þess vegna Akureyrarbæ að hann legðist gegn bráðabirgðahúsnæði velferðarráðs við Glerárósa.

Þar eru gildi allt of há allan ársins hring til að þar sé í boði að koma fyrir íbúðarhúsnæði af einhverjum toga.

Sú tímabundna mengun sú sem við höfum séð höfðuðborgarbúa hafa stórkostlegar áhyggjur af búa íbúar við Eyjafjörð við alla daga, allan ársins hring.

En af hverju dregst svona úr hömlu að gera eitthvað í málum ?

Þetta er dýr framkvæmd og einhvernvegin er svona málum oftast forgangsraðað aftast í framkvæmdaröðina, kannski ekki nægilega sýnilegt þeim sem ráða.

Það var því jákvætt þegar Norðurorka tók yfir málið og maður reiknaði nú með að eitthvað gerðist.

En viti menn, það gerðist ekki neitt nema þetta var boðið út, ekkert tilboð kom og þá var bara hætt og nú hafa engar framkvæmdir verið á þessu svæði í meira en eitt ár og styttist í tvö árin.

Það er algjörlega óásættanlegt að íbúar á svæðinu þurfi að búa við þetta ástand ár eftir ár eftir ár vegna þessa og hins.

Bæjaryfirvöld og Noðurorka verða að girða sig í brók og halda þessu áfram, svona gengur þetta ekki lengur.

Ef enginn innlendur verktaki vill taka þetta að sér verður að leita annarra leiða, þær eru til.

Formaður Heilbrigðisnefndar NA.

Sambíó

UMMÆLI