Framsókn

Meistaramánuður

Meistaramánuður

Jæja þá datt á okkur enn einn október. Merkilegur fjandi er það, að alltaf skuli bilið styttast á milli þeirra októbera, ekki einu sinni farsóttir og sóttkví duga til að hægja á tímanum,- altso mínum tíma,- og á mínum aldri. En það er nú útúrdúr.

Október á sína merkimiða eins og aðrir mánuðir, sumri lýkur formlega og hversdagslífið tekur við. Október á sér yfirleitt haustliti  þótt þeir séu seint á ferð í ár og hann er líka bleikur sem er litur baráttu gegn brjóstakrabbameini.  Börnin eru farin í skólana, þótt mörg þeirra séu reyndar komin í sóttkví, lömbum hefur verið smalað og þeim slátrað, berin eru löngu farin í sultukrukkurnar og kartöflurnar hafa verið dregnar upp í dagsljósið.  Svolítið uppáhalds hjá mér, þessi mánuður. Akureyrarhaustið mitt er með spegilsléttum sólskinsdögum, eldrauðum reyniberjum og kulda sem klípur í nefið. Gott að gera súpu, setja upp trefil og fara út og taka myndir.

En október er líka meistaramánuður. Það þýðir að mánuðurinn er helgaður því að fólk setji sér markmið sem snúast um að vera besta útgáfan af sér og takast á við hið þýfða landslag sem er utan þægindarammans. Það þýðir þá líklega að ögra svolítið kvíðanum og óttanum við það sem við þekkjum ekki. Og það er nú ekkert lítið verkefni út af fyrir sig.

Fyrir suma snýst þetta um að hlaupa hraðar og klifra hærra og fyrir aðra snýst það um að skrifa niður ljóðin sem sveima í kollinum eða að fara út eftir kvöldmat. Þetta síðastnefnda er til dæmis orðið kyrfilega utan míns þægindahrings og þannig breytast markmiðin okkar með nýjum aðstæðu. Við eldumst og getum ekki lengur allt sem við gátum fyrr, heilsan tekur breytingum og tíminn hleypur stundum miklu hraðar en við ráðum við.

Við getum hinsvegar öll verið og erum líklega flest meistarar. Ekki bara í október heldur alla mánuði ársins. Ekki bara þegar við náum markmiðunum okkar heldur líka þegar okkur mistekst. Jafnvel helst þegar okkur mistekst því að það þýðir að við munum læra eitthvað nýtt til að nota okkur í næstu atrennu. Markmiðin eru líka bara leiðir til að lifa eftir þeim gildum sem eru okkur mikilvæg. Þau gildi breytast ekkert þótt að við hrösum á leiðinni að markmiðunum en þau gera það að verkum að við gefumst ekki upp og reynum aftur.

Það held ég að sé besta útgáfan af okkur, sú sem tekst stundum vel upp og stundum ekki. Útgáfan sem skilur að kvíðinn, óttinn og allar hinar tilfinningarnar og erfiðu hugsanirnar, eru sameiginleg okkur öllum og eiga sér tilverurétt og jafnvel tilgang. Að lífið er ekki einfalt eða auðvelt nema bara stundum. Þeir sem gera sér grein fyrir þessu en halda samt áfram að brosa í gegnum tárin og byrja aftur,- þeir kunna á meistarataktana.

Þannig held ég að við þurfum ekki að gera eitthvað stórkostlegt til að vera meistarar í október og öllum hinum mánuðunum. Við getum gert eins og starfsfólkið í apótekinu hér á Akureyri sem árum saman hefur heftað kærleiksrík og falleg skilaboð á lyfjaafgreiðslurnar eða eigandi kaffihússins sem gefur matinn sem ekki selst yfir daginn, til þeirra sem minna hafa á milli handanna. Við getum brosað til samferðamannanna, auðsýnt góðmennsku og virðingu.  Við getum hugsað hlýlega til jarðarinnar sem fæðir okkur og gert okkar til að hlú að henni og við getum yfirhöfuð reynt að vera sæmilega artarlegar manneskjur. Þannig getum við öll verið meistarar í október.


Vilt þú birta grein á Kaffið.is? Sendu á okkur með því að smella hér

Sambíó

UMMÆLI