NTC

Meinað að nota flugmiða til Akureyrar vegna No-show reglu Icelandair

Meinað að nota flugmiða til Akureyrar vegna No-show reglu Icelandair

Kona frá Akureyri lenti í heldur óskemmtilegri reynslu á flugferðalagi sínu á dögunum. Henni var meinað að nýta flugfarmiða sinn á heimleið til Akureyrar eftir að hafa misst af fyrri legg flugsins. Í kjölfarið hafði konan samband við Neytendasamtökin sem segja frá málinu á vefsíðu sinni ns.is.

Í stuttu máli snýst málið um svokallaða No-show reglu (mætingarskyldu) Icelandair. Konan hafði keypt flug á milli Akureyrar og Reykjavíkur og bókað bæði flugin í einu. Hún missti af fyrra fluginu og þurfti því að kaupa nýjan farmiða og flaug suður seinna sama dag. Þegar konan mætti á Reykjavíkurflugvöll fyrir heimferð til Akureyrar var henni hins vegar meinað að nýta flugfarmiðann. Konan taldi að hér hlyti að vera misskilningur á ferð þar sem hún hafði greitt fyrir flugið og var með staðfestingu á því. Henni var þá tjáð að þar sem hún hafði ekki mætt í fyrri legg flugsins (Akureyri-Reykjavík) félli seinni leggur niður. Þar sem vélin var fullbókuð þurfti konan að leigja bíl á eigin kostnað og keyra norður. Neytendasamtökin höfðu samband við Icelandair og gerðu kröfu um endurgreiðslu á farmiðanum, sem Icelandair féllst á.

Kaffið heyrði í Brynhildi Pétursdóttur framkvæmdastjóra Neytendasamtakanna og spurði hvort svona mál væru algeng.

„Fyrir Covid vorum við alltaf að fá einhver svona mál en aldrei í tengslum við innanlandsflug. Þetta er fyrsta þannig málið og það leystist eftir að við höfum samband við flugfélagið fyrir hönd okkar félagsmanns. Þau mál sem við vorum að fá allt þar til ferðalög lögðust svo að segja af, leystust öll á endanum þannig að það virðist vera sem Icelandair vilji sætta þessi mál og ekki láta reyna á þennan skilmála fyrir kærunefnd eða dómi. Það er þess vegna einkennilegt að þessi skilmáli sé ekki einfaldlega fjarlægður, enda teljum við að hann sé ólöglegur.“

Hvað geta neytendur gert til ef þeir lenda í svona löguðu?

„Neytendur eiga að mótmæla og gera kröfu um að fá að nota farmiðann sem þeir hafa jú keypt. Það er alltaf gott að senda kvörtun í tölvupósti og óska eftir svari því þá er hægt að rekja samskiptin ef mál færi til dæmis fyrir kærunefnd. Við viljum líka gjarna vita af því ef verið er að taka flugmiða fólks eignarnámi og okkur hefur tekist vel að vinna úr þeim málum sem koma inn á okkar borð. En barátta okkar núna snýst auðvitað um að þessi skilmáli heyri sögunni til svo fólk sé ekki að lenda í svona rugli“, segir Brynhildur að lokum.

Heildarumfjöllun um málið má finna á vef Neytendasamtakanna með því að smella hér.

Sambíó

UMMÆLI