NTC

Matarhátíð á Akureyri – Local Food Festival

34b0edba5ac019a516c5c205b5041718

Helgina 29.september – 1.október verður Norðlenska matarhátíðin haldin, eða Local Food Festival.
Þetta er í annað skiptið sem hátíðin er haldin en áður en hún kom til sögunnar var Matur-inn einnig mjög vel sótt matarhátíð.
Í framhaldinu mun hátíðin alltaf verið haldin annað hvert ár og því um að gera að nýta tækifærið og mæta þetta árið.

Sýningin fer fram í Íþróttahöllinni og er opin öllum sælkerum og mataráhugamönnum.
Áhersla er lögð á kynningar og sölu en svo er einnig keppt um ýmsa titla. Faglærðir matreiðslumenn keppa um titilinn:
Local Food kokkur ársins 2016. Þá hafa þeir 90 mínútur til þess að reiða fram tveggja rétta máltíð fyrir fjóra. Matreiðslan fer fram fyrir framan dómnefnd, gesti og gangandi.

Einnig koma barþjónar á Norðurlandi til með að keppa um besta kokteilinn, kaffibarþjónar um besta kaffidrykkinn og einnig verður barist um titilinn: Besta kakan, en sú keppni er opin almenningi.
Hægt er að skrá sig og nálgast frekari upplýsingar um keppnirnar inn á www.localfood.is.

Á efri hæð Íþróttahallarinnar mun svo Iðnaðarsafnið standa fyrir sýningu um matvælaframleiðslu síðustu áratuga á Akureyri, en eins og mörgum er kunnugt á Akureyri sér langa sögu í matvælaframleiðslu.

Þetta árið láta forsvarsmenn Local Food Festival þó íþróttahöllina ekki nægja og ætla að standa fyrir svo kölluðu ,,Food and Fun Pop Up“ á völdum veitingastöðum bæjarins.
Þeir sem að hafa sótt Food and Fun hátíðina í Reykjavík sem haldin er í febrúar á hverju ári geta e.t.v. getið sér til um fyrirkomulagið, en fyrir þá sem hafa ekki enn sótt hátíðina þá virkar þetta svona:
Á þessum völdum veitingahúsum verður fjögurra rétta matseðill á boðstólnum. Hann er gerður alveg óháður matseðlinum sem er fyrir á því veitingahúsi og það er gestakokkur sem hannar hann og eldar, bara þessa einu helgi. Þetta gefur bæjarbúum einstakt tækifæri til þess að prufa eitthvað alveg nýtt og framandi.

Aðgangur að sýningunni í íþróttahöllinni er ókeypis og opnar hún kl. 13 laugardaginn 1.október og stendur til kl.18.
Við hjá Kaffinu hvetjum alla eindregið til þess að mæta en árið 2015 sóttu alls 15 þúsund gestir hátíðina og yfir 30 fyrirtæki tóku þátt í sýningunni.
Sýningin er ein sinnar tegundar á Norðurlandi og er kjörinn kynningarvettvangur fyrir bæði gesti og fyrirtæki.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó