Martha Hermannsdóttir var um helgina tekin inn í goðsagnarhöll handknattleiksdeildar KA. Martha er sú fyrsta í sögu kvennaliðs KA/Þórs til að vera tekin inn í höllina. Martha var vígð inn fyrir leik KA/Þórs og Víkings á laugardaginn en stelpurnar hömpuðu sjálfum Deildarmeistaratitlinum að leik loknum. Þetta kemur fram á vef KA.
„Martha er gríðarlega vel að þessum heiðri komin en Martha er leikjahæsti leikmaðurinn í sögu KA/Þórs með 313 keppnisleiki í deildarkeppni, bikar og evrópu. Megnið af þeim leikjum lék hún sem fyrirliði liðsins en Martha er skilgreiningin á leiðtoga bæði innan sem utan vallar. Ekki nóg með að gefa allt af sér innan vallar þá hefur Martha einnig gefið gríðarlega af sér í starfinu í kringum kvennahandboltann. Meiri jaxl er erfitt að finna og dró hún ítrekað fram skóna á ný til að aðstoða lið KA/Þórs,“ segir á vef KA.
Hún fór fyrir liði KA/Þór sem fyrirliði þegar stelpurnar urðu Meistarar Meistaranna, Deildarmeistarar, Íslandsmeistarar og að lokum Bikarmeistarar tímabilið 2020-2021. Martha var kjörin mikilvægasti leikmaðurinn í úrslitakeppninni það árið.
Nánari umfjöllun um Mörthu og viðurkenninguna má finna á vef KA með því að smella hér.