Marta María Jóhannsdóttir náði besta árangri sem Íslendingur hefur náð á Norðurlandamóti í keppnisflokknum Junior ladies

Marta María Jóhannsdóttir hefur staðið sig frábærlega í íþróttinni. Mynd: ÍSS.

Norðurlandamótið í listhlaupi á skautum var haldið í Rovaniemi í Finnlandi dagana 1.-4. febrúar sl. Þar kepptu 8 keppendur frá Skautasambandi Íslands fyrir hönd Íslands en á Norðurlandamótinu er samkeppnin gríðarlega hörð. Þar af voru fimm keppendur frá Skautafélagi Akureyrar en landsliðið hefur aldrei unnið til fleiri afreka á nokkru Norðurlandamóti hingað til.

Þá náði Marta María Jóhannsdóttir, sem æfir með Skautafélagi Akureyrar, besta árangri íslensks skautara á Norðurlandamóti í keppnisflokki Junior með samanlagt 93,23 stig í heildina fyrir stutt og frjálst prógramm. Hún hafnaði í 10. sæti af 20 keppendum. Marta María hefur átt glæsilegan vetur í Junior keppnisflokki þar sem hún hefur hafnað í fyrsta sæti á öllum mótum hérlendis. Þá stóð hún sig einnig frábærlega á Reykjavíkurleikunum í lok janúar þar sem hún sló persónulegt met með 98 heildarstig.

Emelía Rós Ómarsdóttir (SA) keppti einnig fyrir hönd Íslands í Junior flokki og endaði í 15. sæti. Aðrir keppendur Íslands frá Akureyri náðu einnig góðum árangri í sínum keppnisflokkum en Aldís Kara Bergsdóttir hafnaði í 14. sæti, Rebekka Rós Ómarsdóttir í 18. sæti og Ásdís Arna Fen í 20. sæti í keppnisflokknum Advanced Novice.
Listskautarar á Íslandi hafa tekið gríðarlegum framförum í íþróttinni síðastliðin ár svo eftir því er tekið erlendis. Framtíðin er björt hjá Skautafélagi Akureyrar í íþróttinni og verður spennandi að fylgjast með öllum þeirra ungu og efnilegu íþróttakonum.

Greinin birtist upphaflega í Norðurlandi 8. febrúar.

Marta María var kjörin skautakona LSA 2017.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó