María og Sólon eru íþróttafólk FIMAK 2023

María og Sólon eru íþróttafólk FIMAK 2023

Í gær, miðvikudaginn 17. janúar, var íþróttafólk Fimleikafélagsins á Akureyri fyrir árið 2023 krýnt.  Þjálfarar völdu þau Sólon Sverrison úr áhaldafimleikum sem íþróttamann FIMAK 2023 og Maríu Sól Jónsdóttir úr áhaldafimleikum sem íþróttakonu FIMAK 2023. Þau eiga það sameiginlegt að hafa stundað íþróttina síðan á leikskólaaldri og með mikilli vinnu, ástundum og einbeitingu náð langt hvort í sinni grein. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef FIMAK þar sem segir eftirfarandi um þau Sólon og Maríu:

Sólon Sverrisson, fimleikamaður ársins 2023.

Sólon sem verður 17 ára á árinu hefur æft fimleika hjá FIMAK frá leikskólaaldri. Ýmsir hafa komið að þjálfun Sólons þar á meðal Jan Bogodoi á yngri árum en síðustu þrjú ár hefur Mario Picón þjálfað Sólon. Á fyrri hluta ársins átti  Sólon við meiðsli að stríða en kom sterkur inn á Haustmót FSÍ sem fór fram í Gerplu í október. Þar keppti Sólon í frjálsu þrepi í unglingaflokki, hann var í öðru sæti í fjölþraut,  hlaut brons á gólfi, gull í hringum og gull í stökki. Sólon tók einnig þátt í landsliðsæfingum á árinu. Sólon er gríðarlega ákveðinn, vinnusamur, kurteis og leggur mikið á sig við æfingar til að ná markmiðum sínum. Auk þess er hann frábær fyrirmynd fyrir yngri iðkendur. Meðfram þessum stífu æfingum er hann á öðru ári í vélstjórn við VMA.

 María Sól Jónsdóttir, fimleikakona ársins 2023.

María Sól sem verður nítján ára á árinu hefur æft áhaldafimleika hjá FIMAK frá leikskólaaldri. Lengst af æfði hún undir leiðsögn Florin og Mirelu Paun en þjálfarar hennar frá árinu 2020 eru Mihaela og Jan Bogodoi. María Sól keppir í frjálsum æfingum. Á GK móti sem haldið var í maí vann hún til fimm verðlauna. 1 sæti fyrir stökk, 2.sæti fyrir fjölþraut,3. sæti fyrir tvíslá, slá og gólf. Mótið var haldið hjá Gerplu. Einnig tók María Sól þátt í landsliðsæfingu í áhaldafimleikum sem fór fram í janúar 2022. María Sól er góð fyrirmynd yngri iðkenda deildarinnar. Það hefur hún sýnt  með vinnusemi sinni, ákveðni og vingjarnlegri framkomu. Auk þess að æfa fimleika er hún aðstoðarþjálfari yngri hópa og er á síðasta ári á íþróttabraut við VMA. Við hlökkum til að sjá Maríu Sól gera góða hluti í framtíðinni og óskum henni innilega til hamingju með titilinn Íþróttakona ársins.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó