Margs konar viðburðir á Akureyrarvöku

Margs konar viðburðir á Akureyrarvöku

Akureyrarvaka, afmælishátíð Akureyrarbæjar, verður sett í Lystigarðinum á föstudagskvöld með rómantískri rökkurró. Aðrir hápunktar helgarinnar eru meðal annars opnun á nýju og miklu stærra Listasafni í Listagilinu og stórtónleikar á laugardagskvöld þar sem koma fram Jónas Sig, Svala, Salka Sól, Magni, Birkir Blær og hljómsveitin Vaðlaheiðin. Tónleikarnir verða sendir út beint á Rás 2.

Eftir setninguna í Lystigarðinum á föstudagskvöld verða margs konar viðburðir í boði fyrir alla aldurshópa; tónleikar í Café Laut með Guðrúnu Hörpu og Kristjáni Edelstein, Brúðuleikhús fyrir yngri kynslóðina í Menntaskólanum á Akureyri, Draugahús í Samkomuhúsinu fyrir unga fólkið og fjölskyldukarnival á flötinni fyrir neðan leikhúsið.

Á laugardag er upplagt að hefja daginn í Sundlaug Akureyrar þar sem stígur á stokk ungt og efnilegt tónlistarfólk; Egill Bjarni verður með uppistand í innilaug, boðið verður upp á Aqua Zumba og til að toppa allt verður Orðakaffi í anddyrinu með marengstoppasmakk. Vísindasetrið er á sínum stað og er það enginn annar en Vísinda Villi sem verður með stórsýningu í ár. Einnig verður hægt að fræðast um og prófa sýndarveruleika, tengja saman vísindin og sirkuslistir, mæta á sjónvarpssett, verða sérfræðingur í að grafa göng og margt fleira. Klukkan 15 á laugardag verður Listasafnið á Akureyri opnað með pomp og prakt. Þar verða opnaðar sex nýjar sýningar, auk þess sem tónlistaratriði verða reglulega yfir daginn. Á sama tíma opnar falleg safnbúð og Kaffi Gil, nýtt kaffihús í Listasafninu. Víða um bæinn má svo finna alls konar viðburði fyrir augun, eyrun, magann, börnin og alla.

Stórtónleikar verða í Gilinu á laugardagskvöldið og í ár er það einvala lið söngvara sem treður upp ásamt hljómsveitinni Vaðlaheiðinni. Söngvararnir eru Jónas Sig, Svala, Salka Sól, Magni og Birkir Blær. Kynnir tónleikana verður Jóhann Axel Ingólfsson og verða þeir sendir út á Rás 2. Í kjölfarið hefst Friðarvakan, þar sem kertum verður raðað upp í krikjutröppurnar, og að þessu sinni er það Slysavarnadeild Akureyrar sem safnar fyrir hjartastuðtækjum sem verður komið fyrir m.a. í Akureyrarkirkju. Hjálparsveitin Súlur og kvenfélag Akureyrarkirkju aðstoða Slysavarnardeildina við framkvæmdina.

Þetta er aðeins brotabrot af dagskrá Akureyrarvöku en hana má einnig finna á www.akureyrarvaka.is.

Fréttatilkynning af akureyri.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó