Margrét Árnadóttir á leið til Ítalíu

Margrét Árnadóttir á leið til Ítalíu

Knattspyrnukonan Margrét Árnadóttir úr Þór/KA er á leiðinni til knattspyrnuliðsins Parma á Ítalíu. Margrét, sem er fædd árið 1999, er með lausan samning en hún hefur spilað fyrir Þór/KA allan sinn meistaraflokksferil.

Hún spilaði sautján leiki með Þór/KA í Bestu deildinni síðasta sumar þar sem hún skoraði sex mörk. Liðið hafnaði í sjöunda sæti deildarinnar.

Margrét er uppalin hjá KA en hún á að baki alls 132 leiki og 34 mörk fyrir Þór/KA.

„Ég fékk símtal að kvöldi 28. desember um að liðið vildi bjóða mér samning og næsta morgun voru drögin að samningi komin. Ég hafði þá nánast bara dag í að gefa svar og ákvað á endanum að segja já og næsta morgun var kominn samningur,“ segir Margrét í samtali við heimasíðu Þór/KA.

„Mig hefur lengi langað að fara út í atvinnumennsku og hefur alltaf langað að prófa að flytja á meginland Evrópu. Þannig að eftir þetta tímabil ákvað ég aðeins að fara að skoða hvaða möguleika ég ætti.“

Ítarlega umfjöllun og viðtal við Margréti má finna á vef Þór/KA.

Sambíó

UMMÆLI