NTC

Margir lögðu til nafnið Samkomubrúin: „Strax orðin eitt helsta kennileiti bæjarins”

Frá vígslunni. Mynd: akureyri.is

Nýja göngubrúin við Drottningarbraut var vígð í gær og formlega tekin í notkun. Líkt og við greindum frá í gær fékk brúin nafnið Samkomubrúin.

Margir lögðu til nafnið Samkomubrú en nafn Ólafar Stefánsdóttur var dregið úr hatti og vann hún vetrarkort í Hlíðarfjall.

Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður stjórnar Akureyrarstofu, sat í dómnefnd sem valdi nafnið en hún greinir frá því á Facebook síðu sinni í dag að alls hafi 1144 tölvupóstar með tilnefningum borist og valið hafi staðið á milli 507 nafna.

„Ég sat í dómnefnd og ræddum við um það að í raun gætu öll heitin gengið og réttast væri að leyfa reynslunni og tímans tönn að skera úr um hvaða nafn festist á brúnni. Hins vegar varð niðurstaðan sú að velja eitt nafn líkt og okkur var falið og varð Samkomubrúin fyrir valinu. Þess má geta að nafnið Fjörubrúin kom fast a hæla þess nafns í okkar umræðu,” segir Hilda Jana og bætir við að hún sé alsæl með framkvæmdirnar og glöð með það hversu margir njóti svæðisins við hafið.

Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar, flutti stutt ávarp við vígsluna í gær. Hún þakkaði þeim sem komu að verkinu og sagði meðal annars að brúin væri strax orðin eitt helsta kennileiti bæjarins, þangað kæmu flest ef ekki öll brúðhjón að lokinni athöfn til að láta taka mynd af sér með brúna, bæinn og kirkjuna í baksýn. Í huga Höllu væru brýr tákn um tengingu milli ólíkra heima og samstöðu meðal fólks.

Í dómnefndinni sátu ásamt Hildu Jönu, Hulda Margrét Sveinsdóttir fulltrúi Ungmennaráðs, Kristinn Jakob Reimarsson sviðsstjóri samfélagssviðs Akureyrarbæjar, Ragnar Hólm Ragnarsson upplýsinga- og kynningarfulltrúi Akureyrarbæjar, og Valgerður Jónsdóttir fulltrúi Öldungaráðs.

Sambíó

UMMÆLI