Daninn Marcel Rømer hefur skrifað undir samning við knattspyrnudeild KA og mun leika með liðinu í sumar. Rømer er 33 ára miðjumaður sem kemur frá danska liðinu Lyngby þar sem hann var fyrirliði. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef KA.
„Það er ljóst að það er mikil styrking að fá Rømer í lið okkar en hann hefur leikið rúmlega 250 leiki í efstu deild í Danmörku og hefur verið leiðtogi í sterku liði Lyngby,“ segir í tilkynningunni.
Rømer leikur iðulega á miðri miðjunni sem varnarsinnaður miðjumaður en hann getur einnig leikið sem miðvörður.
Hann hóf feril sinn í HB Køge þar sem hann braut sér leið inn í meistaraflokkslið félagsins árið 2009. Þar lék hann 98 leiki uns hann gekk í raðir Viborg árið 2013. Þar lék hann í þrjú ár og gekk í kjölfarið í raðir SønderjyskE. Þar lék hann 101 leik áður en hann gekk loks í raðir Lyngby árið 2019. Þá lék Rømer 8 leiki með yngrilandsliðum Danmerkur á sínum tíma og gerði í þeim eitt mark.
„Við erum virkilega spennt fyrir komu Rømers hingað norður og ljóst að hann mun bæði styrkja liðið sem og færa mikilvæga reynslu inn í hópinn en spennandi verkefni eru framundan en Bikarmeistarar KA leika í evrópukeppni í sumar og þá hefur KA leik í Mjólkurbikarnum á föstudaginn þegar KFA mætir norður á Greifavöllinn,“ segir á vef KA.