Gæludýr.is

Mánudagsmorgun eftir fyrsta vetrardag

Mánudagsmorgun eftir fyrsta vetrardag

Sævar Þór Halldórsson skrifar:

Gangstéttarnar voru blautar, það hafði ekki frosið þessa nóttina líkt og næturnar á undan. Kuldinn beit ekki jafn mikið í kinnarnar og strákurinn var æstur að fara á hjóli í leikskólann.

Frúin ætlaði með hann þennan daginn og því bað strákurinn um knús frá mér, pabba sínum, áður en ég héldi af stað í vinnuna. Þegar út var komið sá ég að önnur tunnan var komin út á götu, ég nefni því við frúna hvort að það væri ekki eitthvað sem þyrfti að fara í endurvinnslutunnuna áður en hún yrði tæmd, þannig við gætum byrjað vikuna á „tómu“ húsi.

Tunnan var nefnilega orðin nokkuð full, barnaafmæli fyrr í mánuðinum og því kannski meira í henni en vanalega en þó ekki barmafull og gæti alveg tekið við einhverju fleira. Ég gekk inn og við það var mér litið á tunnuna sem var eftir, ha? Nei? Þarna var endurvinnslutunnan, ekki er verið að tæma tunnuna fyrir óendurvinnanlegt. Ég hafði auðvitað ekki lagt í það að leggja tæmingardagana á minnið og ekki sett það inn á dagatalið. Í tunnunni, núna úti á götu, voru kannski bara nokkur snýtubréf.

Jú, eitthvað var í lífræna hólfinu, en ekkert sem mætti ekki bíða í viku í viðbót eða svo. Sérstaklega þegar það er kalt í veðri eins og þessa dagana í kringum fyrsta vetrardag. Ég hugsaði um að núna væri fólk keyrandi um bæinn á nokkuð stórum trukk að tæma botnfylli í allnokkrum tunnum.

Ég átta mig þá á því að það er auðvitað til fólk sem ekki flokkar, en hugsa þá að af hverju ætti að eyða talsverðum auka pening samfélagsins til að þjónusta það vonandi fáa fólk. Getum við ekki gert betur, samfélagið sparar, það fækkar trukkum á íbúagötum og fólk sem nennti ekki að flokka neyðist nú til þess þar sem það er ekki pláss í almennu ruslafötunni þeirra. Akureyrarbær og Umhverfis- og mannvirkjaráð, er ekki hægt að breyta samningnum og fækka losunardögum og spara þannig fyrir samfélagið?

Höfundur er áhugamaður um endurvinnslu. 


Vilt þú birta grein á Kaffið.is? Sendu á okkur með því að smella hér

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó