Miðvikudaginn 30. mars kl. 14 verður haldið í Listasafninu á Akureyri málþing um möguleika á að koma á fót listnámi á háskólastigi á Akureyri. Lagt er upp með þá hugmynd að koma á nánara samstarfi á milli Háskólans á Akureyri og Listaháskóla Íslands með það fyrir augum að byggja upp slíkt nám í bænum.
Ávörp flytja Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands og Anna Richards, gjörningalistakona. Að loknum framsögum kynnir Arnar Jóhannesson frá RHA fýsileikakönnun sem gerð var á hug framhaldsskólanema á landinu til að stunda listnám á háskólastigi á Akureyri. Loks segir Vilhjálmur Bragason nokkur vel valin orð um inntak málþingsins.
Eftir stutt kaffihlé verður flutt á skjá ávarp úr fjarska frá listamanninum Bergþóri Morthens og að því búnu verða pallborðsumræður með þáttöku framsögumanna og að auki Örnu Valsdóttur, listamanns, og Benedikts Barðasonar, aðstoðarskólastjóra VMA.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, slítur málþinginu með nokkrum orðum og að því búnu verður boðið upp á léttar veitingar.
Fundarstjóri verður Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri.
Allir velkomnir.
Málþingið er haldið að frumkvæði SSNE og Akureyrarbæjar með stuðningi úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra í samvinnu við Háskólann á Akureyri, Listaháskóla Íslands, Listasafnið á Akureyri, Menntaskólann á Akureyri, Menntaskólann á Tröllaskaga og Verkmenntaskólann á Akureyri.
UMMÆLI