Málþing um líknarþjónustu á Norðurlandi

Sjúkrahúsið á Akureyri

Sjúkrahúsið á Akureyri

Umfangsmikið málþing fagfólks og almennings verður haldið í Oddfellowhúsinu á Akureyri á morgun, föstudaginn 30. september frá klukkan 13-17. Þar á að ræða líknina og dauðann. Málþingið er hluti af baráttu Sjúkrahússins á Akureyri fyrir að fá líknardeild við sjúkrahúsið.

Á málþinginu verða flutt nokkur erindi um stöðu og framtíðarsýn varðandi líknarþjónustu á Norðurlandi og í framhaldi af því verða pallborðsumræður. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Bjarni Jónasson forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri eru meðal þeirra sem flytja munu erindi á þinginu.

Kristín S. Bjarnadóttir er ein af þeim sem stendur að málþinginu en hún  hefur starfað hjá Heimahlynningu á Akureyri undanfarin 12 ár. Kristín segir í samtali við Kaffið að það hafi lengi staðið til að koma á fót líknardeild á Akureyri. Hugmyndin hafi í raun fyrst komið fram þegar heimahlynning fór af stað hér í bænum fyrir rúmum tuttugu árum.

Hún segir að  mikilvægt sé að bjóða upp á líknardeild því einstaklingar geti verið það veikir að heimahlynning sé ekki nóg og þá þurfi að leggja þá inn. Í dag eru þeir einstaklingar í flestum tilvikum lagðir inn á lyflækningadeild sjúkrahússins sem er stór bráðadeild. Kristín telur það óæskilegt þar sem aðstæður deyjandi fólks og þeirra sem eru á lyflækningadeildinni eða bráðadeild séu ólíkar. Hún segir málþingið mikilvægt til að opna umræðuna um líknarþjónustu og dauðann.

Bjarni Jónasson forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri segir í samtali við Kaffið að það sé mat fagfólks að þörf sé á líknardeild innan veggja sjúkrahússins en að í dag sé ekki nægt rými þar til þess að bjóða upp á slíka þjónustu. Ný legudeildabygging sem er væntanleg við sjúkrahúsið muni þó vonandi skapa rýmið sem til þarf.

Hann segir að markmiðið sé að bjóða upp á líknardeild við Sjúkrahúsið á Akureyri. Þar til sú líknardeild verði að veruleika sé boðið upp á góða þjónustu fyrir fólk sem þarf á slíkri deild að halda með öflugri heimahlynningu, á öldrunarstofnunum og á sjúkrahúsinu og mikið hafi verið gert í að byggja upp sérfræðiþekkingu í þessum málum.

Við hvetjum fólk til að mæta og kynna sér málið nánar á morgun frá klukkan 13-17 í Oddfellow húsinu.

Dagskrá málþingsins má sjá hér:

14524459_10154093810639405_7398788920381409003_o

 

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó