NTC

Í málefnum barnafjölskyldna skiptir hugmyndafræði máli!

Öll viljum við gera betur við barnafjölskyldur hér í bæ og styðja betur við börn og foreldra. Allir flokkar sem nú bjóða fram krafta sína í bæjarstjórnarkosningunum eru með stefnu í dagvistunarmálum og skýr vilji virðist vera til að vinna að því að börn fái leikskólapláss fyrr en tíðkast hefur, eða frá 12 mánaða aldri. Þetta er verkefni sem þarf að vinna í skrefum næstu fjögur ár. Samfylkingin setur þessar breytingar á oddinn í sinni stefnuskrá, ekki síst til að jafna aðstöðu foreldra til að stunda vinnu og nám. Meðan unnið er að aðgengi yngri barna að leikskólum teljum við mikilvægt að jafna greiðslur til foreldra sem eiga börn seint á árinu og fá ekki boð um leikskólapláss að hausti, þegar nýtt skólaár hefst. Það þýðir að foreldrar eiga ekki að þurfa að borga hærra mánaðargjald hjá dagforeldrum en sem samsvarar mánaðargjaldi barns á sama aldri sem er á leikskóla. Þannig er tryggt að allir foreldrar sitji við sama borð, sama hvenær á árinu barnið er fætt.

Niðurgreiðslur til forréttindahópa

L listinn boðar sex tíma gjaldfrjálsan leikskóla þar sem lagt er upp með að fyrstu sex klukkustundir dagsins séu fríar en þurfi foreldrar vistun umfram þær stundir gefist þeim kostur á að kaupa aukastundir á raunvirði. Þetta þýðir að þeir sem eru með börnin sín í átta tíma vistun á dag borga jafn mikið og áður meðan þeir sem þurfa aðeins á sex tímum að halda borga ekkert úr eigin vasa. Markmiðið er að hvetja fólk til að stytta dvalartíma barna á leikskólum. Þessi tillaga þýðir að skattgreiðendur borga leikskólann fyrir þá sem eru í þeirri forréttindastöðu að geta unnið styttri vinnudag.

Þessi leið er þar með hugsuð fyrir efnameiri fjölskyldur sem hafa ráð á því að minnka við sig vinnu og fjölskyldur þar sem sterk fyrirvinna er á heimilinu. Þetta er einmitt hópurinn sem ætti svo sannarlega að hafa ráð á því að borga leikskólagjöld. Þessi leið gagnast aftur á móti tæplega þeim fjölskyldum sem eiga hvað erfiðast með að ná endum saman. Samkvæmt Hagstofunni eru um 26% fjölskyldna á Akureyri einstæðir foreldrar og efast má um að margir einstæðir foreldrar gætu nýtt sér þessa framkvæmd. Heldur ekki fjölskyldur í láglaunastörfum og ekki þeir sem eru án fjölskyldu- og tengslanets, eins og á t.d. við um marga innflytjendur. Gleymum því heldur ekki að aðgerðir í þessa veru eru ekki til þess fallnar að stuðla að auknu kynjajafnrétti, sérstaklega ekki meðan launamunur kynjanna er enn staðreynd.

Styttri vinnuvika og meiri gæðatími

Það eru örugglega allir sammála um að leggja þurfi meiri áherslu á samveru fjölskyldunnar og minna álag á börn og barnafjölskyldur en ekki má líta framhjá því að þorri fólks hefur hvorki kost á því né ráð á að vinna í hlutastarfi. Þess vegna teljum við í Samfylkingunni mikilvægt að byrja á hinum endanum með því að fara í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar, án launaskerðingar. Reykjavíkurborg og nokkrar ríkisstofnanir hafa rutt brautina og eru flestir sammála um að ánægja starfsmanna sé meiri og að vinnuafköst haldist ekki endilega í hendur við fjölda vinnustunda. Markmiðið er að fólk geti stytt vinnudag sinn og varið þannig meiri gæðatíma með börnum sínum og hlúð betur að eigin heilsu og líðan. Það er verkefni sem sveitarfélagið getur farið í til að axla ábyrgð á því samfélagsmeini sem kulnun, álag og streita er. Það kemur öllum vel og getur stuðlað að bættri lýðheilsu og sömuleiðis styttri dvöl barna í leikskóla. Þessi leið krefst ekki ráðstöfunar af almannafé, gerir ekki greinarmun á efnahagslegri stöðu og skapar tækifæri til meiri samvista með fjölskyldu. Það skiptir nefnilega máli á hvaða grunngildum stefnumótun og ákvarðanir byggja.

Höfundur er Valgerður S. Bjarnadóttir, doktorsnemi og frambjóðandi Samfylkingarinnar

Sambíó

UMMÆLI