NTC

Magnús Orri er Ungskáld Akureyrar 2020Viðurkenningar veittar. Frá vinstri: Halla Jóhannesdóttir fyrir hönd Egils Andrasonar, Stefán Elí Hauksson, Alda Rut Sigurðardóttir, Guðbjörg Helga Aðalsteinsdóttir fyrir hönd Magnúsar Orra Aðalsteinssonar, Jóndís Hinriksdóttir, Sigríður Kristjana Ingimarsdóttir, Þórður Sævar Jónsson og Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir.

Magnús Orri er Ungskáld Akureyrar 2020

Magnús Orri Aðalsteinsson hlaut 1. verðlaun í ritlistakeppni Ungskálda 2020 fyrir ljóðið Sálarlaus hafragrautur en úrslit voru kunngjörð í beinni útsendingu á Facebooksíðu Akureyrarbæjar í gær.

Aldrei hafa fleiri sent inn verk til þátttöku í ritlistakeppninni sem hefur það að markmiði að efla ritlist og skapandi hugsun hjá ungu fólki á aldrinum 16-25 ára. Alls bárust 100 verk frá 48 höfundum, 19 strákum og 29 stúlkum. Um er að ræða afar fjölbreytta flóru ritverka: Ljóð, ör- og smásögur, ljóðabálka og heila barnabók.

Veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin:

  1. Sálarlaus hafragrautur eftir Magnús Orra Aðalsteinsson
  2. Rauðhetta og naflinn eftir Stefán Elí Hauksson
  3. Biðin eftir Öldu Rut Sigurðardóttur

Einnig voru veitt sérstök hvatningarverðlaun að þessu sinni en þau hlutu:

  • Jódís Hinriksdóttir fyrir Orðin sem mig skorti og dropi af hollensku viskí
  • Egill Andrason fyrir ÍGRUNDAGAR

Í dómnefnd sátu Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir, bókmenntafræðingur og aðstoðarskólameistari Menntaskólans á Akureyri, Sigríður Kristjana Ingimarsdóttir, bókmenntafræðingur og MA í ritstjórn, og Þórður Sævar Jónsson, ljóskáld, þýðandi og bókavörður á Amtsbókasafninu.

Verðlaunaljóð Magnúsar Orra hljóðar svo:

Sálarlaus hafragrautur

Samanbrotnir pappírsbútar
með myndum af merkum mönnum
gægjast úr veskinu mínu,
sem gægist úr buxnavasanum,
á buxunum sem gægjast undan rúminu.

Við, hinsvegar, erum alveg falin.
Hituð af sænginni, sem við gáfum hita.

Klukkutíma síðar,
eða hvernig líður tímanum, eiginlega?
Skipti ég löngu dauðum biskup
og jafn dauðum forsetanum,
út fyrir sígarettupakka
sem ég reyki einn,
á meðan sálarlaus systkini
borða hafragraut.

Verkefnið Ungskáld er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Akureyrarbæ.

Sambíó

UMMÆLI