Mæðgur opnuðu öðruvísi kaffihús á Akureyri: „Höfum fengið algjörlega frábærar móttökur“

Mæðgur opnuðu öðruvísi kaffihús á Akureyri: „Höfum fengið algjörlega frábærar móttökur“

Mæðgurnar Helena Guðmundsdóttir, Karólína Helenudóttir og Þórunn Jóna Héðinsdóttir opnuðu Sykurverk, nýtt kaffihús, í miðbæ Akureyrar í maí. Þórunn Jóna segir í samtali við Kaffið að þær mæðgur hafi alltaf haft mikinn áhuga á bakstri.

„Við höfum alltaf bakað mikið saman. Ævintýrið byrjaði hjá mömmu sem var dugleg að baka afmæliskökur út frá hugmyndum okkar. Hún gerði meðal annars sundlauga-, strumpa- og Silvíu Nótt köku út frá teikningum Karólínu. Þegar við Karólína urðum eldri fórum við svo að hjálpa meira til,“ segir Þórunn.

Hjá Sykurverk notast þær mæðgur eingöngu við eigin uppskriftir. Ævintýrið hófst þegar að þær byrjuðu að birta myndir á lítilli Facebook síðu af kökum sem þær höfðu bakað.

„Fólk tók vel í þessar myndir og fjölskyldumeðlimir hrósuðu okkur fyrir bragðgóðar kræsingar. Þegar Karólínu gafst kostur á að taka við rekstri lítils kaffihúss hér á Akureyri tókst henni að sannfæra mig og mömmu að koma með í þetta verkefni á endanum. Ég er að útskrifast úr Menntaskólanum 17. júní næstkomandi og mamma var búin að ákveða að hætta í sinni vinnu sem dagforeldri. Þetta var því fullkomin tímasetning í okkar lífi.“

Þegar þær sáu húsnæðið við Brekkugötu 3 til leigu fannst þeim það fullkomin staður með marga kosti. Þeim óraði þó ekki fyrir því að heimsfaraldur væri í nánd. Þær létu samkomubannið sem fylgdi þó ekki á sig fá og nýttu tímann til að undirbúa opnun enn betur.

„Við tókum staðinn alveg í gegn. Við skiptum meðal annars um gólfefni, máluðum í alla króka og kima, löguðum lýsingu og margt margt fleira. Allt gerðum við þetta sjálfar með hjálp frá fjölskyldumeðlimum. Þegar við loksins sáum fyrir endan á ástandinu hér á Íslandi ákváðum við að opna loksins.“

Opnunin tafðist um mánuð en Sykurverk opnaði þann 16. maí síðastliðinn. Þórunn segir að móttökurnar hafi verið algjörlega frábærar og þær hafi átt fullt í fangi með að anna eftirspurn.

„Það er alveg greinilegt að fólk er fegið því að komast aðeins út eftir langa inniveru og ekki skemmir fyrir að hægt sé að prófa nýjan, spennandi og öðruvísi stað,“ segir Þórunn.

Á Facebook-síðu Sykurverk má sjá fjöldan allan af myndum og upplýsingar um verð og opnunartíma.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó