Lögreglunni á Norðurlandi eystra barst tilkynning um klukkan 8 í gærkvöldi um mann sem gengi um með exi á tjaldsvæði bíladaga. Hann væri hávær og hefði í hótunum við aðra gesti tjaldsvæðisins.
Lögregla brást hratt við og tókst að yfirbuga manninn, sem hafði losað sig við vopnið þegar hana bar að garði. Sérsveitin var kölluð út en ekki þurfti á hennar hjálp að halda við að yfirbuga viðkomandi.
„Þetta eru vopnalagabrot og hótanir sem beindust að einstaklingum sem hann átti í einhverjum sasmkiptum við,“ sagði Aðalsteinn Júlíusson aðalvarðstjóri lögreglunnar á Akureyri í samtali við Vísi.
Yfirheyrslur á manninum fara fram í dag en ekki er ljóst hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir manninum. mbl.is greindi fyrst frá.
UMMÆLI