Lögreglan á Norðurlandi Eystra handtók mann í Hrísey síðdegis á fimmtudag. Lögreglan naut aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra við aðgerðirnar. Vísir greindi fyrst frá, en samkvæmt þeirra heimildum var maðurinn handtekinn í heimahúsi.
Engum vopnum var beitt við aðgerðirnar og þurfti enginn að leita sjúkrahjálpar vegna málsins. Maðurinn er laus úr haldi og verður ekki krafist gæsluvarðhalds yfir honum.
Andri Freyr Sveinsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, aðspurður um hvers vegna óskað var eftir aðstoð sérsveitar, segir í samtali við mbl.is: „Verkefnið var þannig að við ákváðum að falast eftir aðstoð frá þeim.“ Frekari upplýsingar um eðli málsins liggja ekki fyrir.
UMMÆLI