Maður dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir gróft heimilisofbeldi


Maður á fertugsaldri var dæmdur síðastliðinn fimmtudag í Héraðsdómi Norðurlands eystra, til tveggja mánaða fangelsisvistar fyrir ítrekað ofbeldi gegn þáverandi sambýliskonu sinni.
Í dómnum segir að maðurinn hafi tvisvar ráðist harkalega á konuna. Í fyrra skiptið heima hjá manninum á Akureyri, mánudaginn 1. maí sl., þar sem hann kýldi hana í andlitið og skallaði. Hann ýtti henni upp að vegg og hélt henni þar með því að ýta framhandlegg sínum upp á hálsi hennar og halda henni þannig fastri. Konunni tókst að losa sig en þá réðist hann á hana að nýju og hélt henni fastri á gólfinu.

Seinna skiptið var einnig heima hjá manninum daginn eftir, þriðjudaginn 2. maí, þar sem hann réðst að konunni með hnefahöggum, skallaði hana ítrekað í andlitið og hrinti henni á gólfið þannig að enni hennar skallaði gólfið.
Konan hlaut bólgur og mar um allt andlit, á miðju enni, yfir kinnbeinum og vinstra megin á kjálka, eymsli og bólgur á vörum, þreifieymsli yfir mjúkpörtum öllum aftan á hálsi og herðum beggja vegna eftir ofbeldið. Þessu greinir Vísir frá.

Ákærði á langan sakaferil að baki sem nær aftur til ársins 1999. Þá hefur hann verið sviptur ökuréttindum ævilangt og verið dæmdur fyrir ýmis ofbeldisbrot, umferðarlagabrot, brot gegn valdstjórninni, þjófnað og fíkniefnalagabrot.

Lækkuð refsing því barsmíðarnar voru flokkuð sem áflog
Maðurinn krafðist þess að refsing hans yrði lækkuð vegna þess að árásirnar á konuna voru skilgreindar sem áflog og dómurinn féllst á þá kröfu. Þetta var í annað sinn sem maðurinn beitir vísvitandi ofbeldi og því var einnig litið til þess þegar dómur var kveðinn. Konan fór fram á 1.5 milljón í miskabætur en maðurinn var dæmdur í tveggja mánaða fangelsisvist og til að greiða konunni 300.000 krónur í miskabætur ásamt málskostnaði, 130.000 krónur, og sakakostnaði, 67.580 krónur

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó