NTC

Borgin mín – Maastricht

Borgin mín er liður á Kaffinu þar sem við ræðum við fráflutta Akureyringa um borgir sem þau búa í víðsvegar um heiminn. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði. Hildur Þórbjörg Ármannsdóttir er 24. ára Akureyringur sem býr í Maastricht í Hollandi þar sem hún stundar nám. Hún sagði okkur frá lífi sínu í borginni.

Hvers vegna býrð þú í borginni? Og af hverju valdirðu hana frekar en aðrar?

Ég og kærastinn minn fluttum til Maastricht í lok síðasta sumars til að fara í háskóla. Aðal ástæðan fyrir Maastricht var námið sem var í boði hér, en ég er að læra í UCM í Maastricht University þar sem þú býrð til þitt eigið nám nánast frá grunni. Ég var harðákveðin að fara í það nám þar sem ég hafði aldrei fundið neitt sambærilegt á Íslandi sem hentaði mínu áhugasviði.

Í hvernig húsnæði býrðu og hvar? (Stúdíóíbúð, herbergi, miðsvæðis, úthverfi) Og er það dýrara en að leigja heima á Íslandi?

Við búum í studio/íbúð ef svo má segja. Búum í tveggja hæða risi í húsi sem er byggt á 17.öld. Erum líka gríðarlega heppin með staðsetningu, en við erum í gamla hluta miðbæjarins þar sem það er hámark 5 mínútna labb í allt. Leiguverðið hér er töluvert lægra en heima, myndi segja að íbúðin sem við leigjum hér myndi kosta tvöfalt meira heima.

Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?

Alls ekki, erum að spara helling á að búa hérna frekar en á Íslandi. Mér dettur amk ekkert í hug í augnablikinu sem er dýrara hér en heima.

Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar? Mestu túristastaðirnir?

Viðurkenni að ég hef verið mjög léleg að túristast í borginni síðan ég kom. Annars finnst mér miðbærinn gríðarlega fallegur og finnst alltaf jafn gaman að labba þar um. Vrijthof torgið er klárlega mesti túrista staðurinn, þar eru ótal veitingahús og barir sem eru yfirleitt úttroðnir af fólki um helgar og þegar það er gott veður. Síðan er Markt torgið þar sem eru vikulegir matar- og fatamarkaðir. Í útjaðri borgarinnar er Sint Pieters virkið og í kringum það er fallegt náttúrusvæði og flott útsýni yfir borgina. Það er fullt af flottum kirkjum og byggingum allstaðar í miðborginni, Sint Janskerk er rauð kirkja sem trónir yfir Vrijthof torgið og er mjög falleg.

Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða?

Veit ekki um einhvern einn stað, nema kannski garðinn hjá UCM byggingunni, þar er minnsti dýragarður sem ég hef séð, með nokkrum dádýrum, ösnum, kengúru og fuglum. Einnig, ef það er gott veður, er gaman að sitja ofan á gamla borgarmúrnum, sem er líka upp við UCM sem er skólinn minn. Í götunni minni er síðan lítið bakarí sem er frekar vinsæll túristastaður, þar selja þau ekta hollenskar bökur sem eru mjög góðar.

Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni?

Uppáhalds veitingastaður er klárlega Dadawan. Fáránlega góður asískur veitingastaður sem er svo ótrúlega ódýr líka. Síðan er líka With Love Burrito, hræódýr staður með bestu burrito sem ég hef smakkað. Uppáhalds kaffihúsið er Koffie, æðislegt kaffi og frábær staður til að læra á. Finnst sérstaklega gaman hvað margir koma með hvuttana sína með sér inn á kaffihúsið.

Kanntu tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku?

Ég kann alveg skammarlega lítið í hollensku, en skólinn býður upp á ókeypis hollensku kennslu fyrir aðflutta, ég mun reyna að nýta mér það á næsta ári þar sem fyrsta árið fylltist upp strax. Tungumálið er mjög ólíkt íslensku, fyrir utan að þegar maður biður um reikninginn, þá er beðið um “reikning” (rekening).

Varstu vör við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst? Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri íslensku?

Ég upplifði menningarsjokk á jákvæðan hátt. Það kom mér á óvart hvað Maastricht er æðisleg. Ég elska allt við að búa hérna og sé ekki fram á að snúa aftur heim neitt í bráð

Hvað einkennir heimamenn?

Þar sem skólinn minn er mjög alþjóðlegur og fæstir frá Hollandi, þá er ég eiginlega ekki viss. Mér finnst þeir sem búa hér vera mjög næs enn sem komið er.

Helstu kostir borgarinnar?

Hvað hún er lítil með margt í boði, hvort sem það eru búðir, veitingastaðir, barir eða bara afþreying. Það tekur síðan aðeins um 10 mínútur að hjóla til að vera komin út fyrir borgina og út í náttúruna. Ég hef líka ekki enn fengið vondan mat eftir að ég flutti hingað.

Helstu gallar borgarinnar?

Það er ekki hægt að fá gelgjufæði og kókið er mjög vont

Gætirðu séð fyrir þér að setjast að til frambúðar í þessari borg?

Algjörlega.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó