NTC

Lundarskóli í fyrsta sæti í upplestrarkeppni grunnskólanna á Akureyri

Lundarskóli í fyrsta sæti í upplestrarkeppni grunnskólanna á Akureyri

Þann 7. mars fór fram upplestrarkeppni grunnskólanna á Akureyri, en hún ber heitið Upphátt. Keppnin var haldin í Hömrum, menningarhúsinu Hofi og var þetta í 22. skiptið sem keppnin var haldin. Í ár áttu sjö skólar fulltrúa í keppninni og því voru það 14 hæfileikaríkir nemendur úr 7. bekk sem lásu part úr sögunni Víti í Vestmannaeyjum eftir Gunnar Helgason og ljóð eftir Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar.

Það voru nemendur í 7. bekk sem tóku þátt en áður en lokahátíðin átti sér stað höfðu skólar haldið forkeppni þar sem tveir fulltrúar voru valdir til að keppa fyrir hönd skólans.

Í dómnefnd sátu Vilhjálmur Bergmann Bragason, Hólmkell Hreinsson og Eyrún Huld Haraldsdóttir. Verðlaunasæti Upphátt, upplestrarkeppni grunnskólanna á Akureyri 2023 hrepptu:

  • Magni Rafn Ragnarsson, Lundarskóla, 1. sæti
  • Arna Lind Jóhannsdóttir, Síðuskóla, 2. sæti
  • Thorfhildur Elva F. Tryggvadóttir, Brekkuskóla, 3. sæti

Í aðdraganda hátíðarinnar var einnig blásið til keppni meðal 7. bekkja um besta veggspjaldið. Teikning eftir Unu Björk Viðarsdóttur nemanda í 7. bekk Glerárskóla sigraði og prýddi veggspjald Upphátt 2023, viðurkenningarskjöl og boðskort keppninnar.

„Fyrir keppni sem þessa þá leggja bæði nemendur og kennarar talsverða vinnu við undirbúning, en upphaf hennar er á degi íslenskra tungu, 16. nóvember ár hvert. Sá hluti keppninnar er kallaður ræktunarhluti þar sem nemendur 7. bekkjar leggja sérstaka áherslu á upplestur, vandaðan framburð, framkomu og túlkun orða. Ómissandi þáttur þessarar hátíðlegu stundar er tónlistarflutningur nemenda í Tónlistarskólanum á Akureyri í sem var í umsjón Steinunnar Arnbjargar Stefánsdóttur og Ásdísar Arnardóttur. Þá flutti Brynhildur Þórarinsdóttir dósent við Háskólann á Akureyri og barnabókahöfundur hvatningu til krakkana og annarra áheyrenda,“ segir í tilkynningu Akureyrarbæjar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó