Gæludýr.is

Lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu viðurkennir opinberlega að besta veðrið sé fyrir norðan

Lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu á í fullu fangi með að vísa fólki frá borginni og norður í góða veðrið.

Lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu hefur stígið fram og viðurkennt opinberlega það sem allir vissu fyrir, að besta veðrið sé ævinlega á Norðurlandi. Veðrið hefur lengi vel verið milli tannanna á fólki, sérstaklega milli Sunnlendinga og Akureyringa, sem endar yfirleitt á því að menn eru sammála um að vera ósammála. Nú er þetta komið á hreint ef marka má tilkynningu lögreglunnar.

Önnur árstíð í Reykjavík 
Það hefur ekki farið framhjá landanum að áberandi glatað veður hefur verið í Reykjavík frá því að sumarið byrjaði. Svo virðist sem það hafi aldrei komið til Reykjavíkur og er sennilega ekki væntanlegt fyrr en kannski á næsta ári ef heppnin er með flatlendingum. T.a.m. er fyrsti sláttur ekki einu sinni hafinn hjá bændum á Suðurlandi en honum er lokið víða á Norðurlandi.

Logn undir Hafnarfjalli en ekki í Reykjavík
Langtímaveðurspáin í Reykjavík gefur til kynna rigningu, að öllum líkindum meiri rigningu og gott ef það eru ekki einhverjar tegundir af vindi að flækjast þarna með.  Þegar þessi frétt er skrifuð er m.a.s. logn undir Hafnarfjalli og freistandi að tjalda frekar þar en að halda áfram til borgarinnar.

Í tilkynningu lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu segir orðrétt: ,,Oftar en ekki er besta, eða skásta, veðrið norðan eða austanlands og ekki ósennilegt að svo verði áfram.“

Lögreglan biðlar til fólks sem er á ferðalagi norður að elta góða veðrið og aka varlega. Hér að neðan má sjá tilkynninguna í heild sinni en við þökkum lögreglunni kærlega fyrir tímabæra staðfestingu á því sem allir vissu.

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó