Lögreglan á Akureyri hefur boðað að minnsta kosti fjóra blaðamenn í yfirheyrslu fyrir meint brot á lögum um friðhelgi einkalífsins. Rannsóknarlögreglumaður frá lögreglunni er á leið til Reykjavíkur til þess að yfirheyra blaðamennina vegna umfjöllunar þeirra um aðferðir svokallaðrar skæruliðadeildar Samherja. Frá þessu er greint á vef Stundarinnar.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar eru minnst þrír blaðamenn boðaðir í yfirheyrslu. Einn þeirra, er Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður Stundarinnar. Hinir eru Þórður Snær Júlíusson, ristjóri Kjarnans, og Arnar Þór Ingólfsson á Kjarnanum. Á vef RÚV kemur fram að Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks hafi einnig verið boðuð í yfirheyrslu.
Í umfjöllun Kjarnans um málið segir: „Það var, og er, skýr niðurstaða ábyrgðarmanna Kjarnans að hluti þeirra gagna sem umfjöllunin byggði á ætti sterkt erindi og því eru almannahagsmunir af því að fjalla um þau með ábyrgum hætti.“
Stundin og Kjarninn fjölluðu í maí síðastliðnum um tilraunir starfsmanna og verktaka Samherja til þess að koma óorði á blaða- og fréttamenn sem fjölluðu um mútumál félagsins í Namibíu. Þar kom meðal annars fram að þrír einstaklingar gegndu lykilhlutverki í áróðursteymi Samherja: Þorbjörn Þórðarson, Arna Bryndís Baldvins McClure lögmaður og Páll Steingrímsson skipstjóri.
Kjarninn og Stundin birtu röð fréttaskýringa sem byggðu á gögnum sem sýndu hvernig stjórnendur, starfsfólk og ráðgjafar Samherja höfðu lagt á ráðin um að ráðast gegn nafngreindum blaðamönnum, listamönnum, stjórnmálamönnum, félagasamtökum og ýmsum öðrum til að hafa af þeim æruna, trúverðugleikann eða lífsviðurværið.
Formaður blaðamannafélags Íslands hefur fordæmt afskipti lögreglunnar af rannsóknarblaðamönnum og segir þau óskiljanleg og óverjandi. Hún segir það ljóst að í málinu hafi almannahagsmunir vegið þyngra en friðhelgi einkalífs. Þá hafi starfsfólk Samherja beðist afsökunar á því sem lýst var í umfjölluninni og réttmæti fréttanna ekki verið véfengt.
Nánar má lesa um málið á vef Stundarinnar og vef Kjarnans.
UMMÆLI