Gæludýr.is

Logi kynnti kosningastefnu Samfylkingarinnar í dag

Logi kynnti kosningastefnu Samfylkingarinnar í dag

Samfylkingin kynnti í dag, þegar nákvæmlega einn mánuður er til kosninga, kosningastefnu sína fyrir alþingiskosningarnar 25. september. Þar má finna þær megináherslur sem flokkurinn setur á oddinn við stjórnarmyndun og í störfum sínum á Alþingi næstu fjögur árin. Kosningastefnan ber yfirheitið Betra líf – fyrir þig, þína fjölskyldu og komandi kynslóðir.

„Samfylkingin ætlar að leiða saman annars konar ríkisstjórn en þá sem nú situr. Ríkisstjórn sem setur fjölskyldur í forgang, er tilbúin að stórbæta kjör eldra fólks og öryrkja, byggja upp sterkara samfélag með nýrri atvinnustefnu, þar sem allir hafa aðgang að fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu og ráðast í alvöru aðgerðir í loftslagsmálum,” – sagði Logi Einarsson, formaður flokksins þegar hann kynnti stefnuna.

Hægt að er að sækja kosningastefnuna hér og skoða inn á heimasíðu flokksins: https://xs.is/stefnan

Kosningastefnan skiptist í fjóra hluta:

Hærri barnabætur og meira fyrir eldra fólk og öryrkja

Samfylkingin leggur áherslu á taka upp alvöru norrænt barnabótakerfi og greiða fleiri fjölskyldum út hærri barnabætur í hverjum mánuði, þannig að barnafjölskyldur með meðaltekjur fái allt að 54.000kr í vasann mánaðarlega. Þá ætlar hún að hækka grunnlífeyri eldra fólks og öryrkja til samræmis við Lífskjarasamningana og hækka frítekjumörk – og ráðast í kerfisbreytingar á húsnæðismarkaði til að auka verulega framboð og lækka verð.

Alvöru aðgerðir í loftslagsmálum

Samfylkingin ætlar sér stóra hluti í loftslagsmálum. „Við ætlum við að að hefja kraftmikla sókn gegn loftslagsbreytingum sem jafnast á við stærstu samfélagsverkefni 20. aldar: Raflýsingu og hitaveitu, lagningu síma og þjóðvega,” sagði Logi í ræðu sinni, „til þess þurfum við nýja nálgun og alvöru aðgerðir strax á öllum sviðum samfélagsins.”

Meðal þess sem Samfylkingin ætlar að gera er að lögfesta loftslagsmarkmið um a.m.k. 60% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 og hefja undirbúning að Keflavíkurlínu, grænni tengingu milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar, og flýta Borgarlínu. Ásamt því ætlum við að byggja upp Landlínu, heildstætt almenningsvagnanet svo að það verði einfaldur og raunhæfur kostur fyrir fólk að ferðast um Ísland án einkabíls. Rafvæða bílaleiguflotann með skattalegum hvötum og markvissri uppbyggingu hleðsluinnviða. Stofna grænan fjárfestingarsjóð að norrænni fyrirmynd og ráðast í umbætur á landbúnaðarkerfinu án þess að draga úr stuðningi við bændur, með því að hætta að skilyrða styrki við framleiðslu á kjöti og mjólk en styðja frekar loftslagsvæn verkefni.

Þjóðarátak í geðheilbrigðismálum og ný atvinnustefna

Samfylkingin ætlar að auka fjármagn, bæta mönnun og aðgengi almennings að heilbrigðisþjónustu um allt land – og ráðast í þjóðarátak í geðheilbrigðismálum. Fyrsta skrefið væri að gera sálfræðiþjónustu fyrir börn og ungmenni mun aðgengilegri og gjaldfrjálsa. Samfylkingin ætlar auk þess að móta nýja og spennandi atvinnustefnu sem byggir meira á hugviti og grænum umskiptum og styðja betur við lítil fyrirtæki og einyrkja með upptöku sérstaks frítekjumarks fyrirtækja – sem eru nýmæli í íslenskum stjórnmálum.

Sókn gegn sérhagsmunum og jöfn tækifæri

Samfylkingin boðar sókn gegn sérhagsmunum, hærri veiðigjöld og endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu með það að markmiði að hámarka arð þjóðarinnar af sjávarauðlindinni. Þá leggur flokkurinn áherslu á haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðna við ESB, að stjórnarskrármálið verði klárað á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs, að ný og mannúðlegri stefna í málefnum flóttafólks verði tekin upp og að samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur, svo eitthvað sé nefnt.


Kaffið.is fylgist með Alþingiskosningunum í haust með áherslu á Norðausturkjördæmi. Hér má finna fleira greinar og annað gagnlegt efni tengt kosningunum.

Sambíó

UMMÆLI