Löggæsla og samfélagið – ráðstefna um löggæslu með áherslu á ofbeldi í víðri merkingu 

Löggæsla og samfélagið – ráðstefna um löggæslu með áherslu á ofbeldi í víðri merkingu 

Ráðstefnan Löggæsla og samfélagið fer fram í sjötta sinn við Háskólann á Akureyri dagana 4. og 5. október. Á dagskránni eru 64 erindi og hefur ráðstefnan aldrei verið umfangsmeiri.  

Guðmundur Oddsson, prófessor í félagsfræði við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri og einn skipuleggjanda ráðstefnunnar, segir ráðstefnuna góðan vettvang fyrir fagfólk og fræðimenn til að reifa málefni sem tengjast löggæslu í víðri merkingu. „Ráðstefnan hefur sannarlega skapað sér nafn hérlendis sem erlendis undanfarin ár. Hún er mikilvægur liður í að byggja upp lögreglufræðisamfélag hér á landi, styðja við frekari fagvæðingu lögreglunnar og að auðkenna leiðir til að gera góða löggæslu enn betri,“ segir Guðmundur. 

Þema ráðstefnunnar í ár er ofbeldi í víðri merkingu. „Ofbeldi á sér stað þegar einhver neytir aflsmunar til að valda skaða. Birtingarmyndir ofbeldis eru margvíslegar og einskorðast ekki við líkamlegt ofbeldi. Ofbeldi fyrirfinnst alls staðar og hefur alvarlegar afleiðingar. Fyrir vikið er ávallt mikilvægt að auðkenna leiðir til þess að taka á og draga úr ofbeldi,“ segir í kynningartexta um ráðstefnuna. 

Umfjöllunarefni ráðstefnunnar eru margvísleg og má þar nefna ofbeldi ungmenna, ráðstafanir stjórnvalda til að stemma stigu við ofbeldi í COVID-19 faraldrinum, lögreglumenntun, vopnaburður lögreglu, kynferðisofbeldi og netbrot. 

Ráðstefnan fer fram á íslensku og ensku. 

Lykilfyrirlesarar eru tveir: 

• Lars Roar Frøyland frá Metropolitan háskólanum í Ósló

• John Violanti frá Buffalo háskóla 

Hér má nálgast dagskrá ráðstefnunnar

Ráðstefnugjald er 8.000 kr. og eru ráðstefnugögn og kaffiveitingar innifaldar. 

Skráning er í fullum gangi hér en einnig er hægt að skrá sig á staðnum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó