Það verður mikið um dýrðir í Menningarhúsinu Hofi í vikunni þegar Leiklistarskóli Leikfélags Akureyrar fagnar lokum vorannar.
„Það er hátíð í bæ,“ segir María Pálsdóttir skólastjóri LLA en níu hópar stíga á stóra sviðið í Hofi og sýna afrakstur annarinnar. Hápunktur vikunnar er svo á fimmtudaginn þegar unglingastig LLA frumflytur tvö ný íslensk verk í samstarfi við Þjóðleik. Verkin eru Höfðingjabaráttan eftir unga Akureyringinn Egil Andrason og Ég er frábær eftir Álfrúnu Örnólfsdóttur. Leikstjóri er Pétur Guðjónsson. Aðgangseyrir er ókeypis en panta þarf miða á mak.is.
María segir vorönnina hafa verið krefjandi en spennandi. „Sóttvarnarreglur hafa breyst eins og vindáttin en við höfum blessunarlega náð að halda dampi. Og nú er komið að kveðjustund en við reiknum fastlega með að hitta megnið af þessum frábæru og skemmtilegu krökkum aftur í haust. Poj poj,“ segir María að lokum.
UMMÆLI