NTC

Ljósaganga gegn ofbeldi (Myndir)Ljósmyndir: Rúnar Freyr Júlíusson

Ljósaganga gegn ofbeldi (Myndir)

Zonta klúbbur Akureyrar, Zonta klúbburinn Þórunn Hyrna og Soroptomistaklúbbur Akureyrar stóðu fyrir ljósagöngu í gær, 30. nóvember, í tilefni af 16 daga átaki gegn ofbeldi.

Mæting á viðburðinn var góð og gengu yfir 50 manns saman frá Zontahúsinu, Aðalstræti 54, meðfram tjörninni og að Bjarmahlíð, Aðalstræti 14.

Raunar var mætingin svo góð að ekki voru nógu margir kyndlar til fyrir alla sem mættu.

Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi Eystra leiddi gönguna, en við upphaf hennar þakkaði hún fyrir þann heiður að fá að taka þátt í göngunni. Hún sagði viðburðinn vera flott framtak og áminningu um að öll verðum við að leggja hönd á plóg í baráttunni gegn ofbeldi.

Að göngunni lokinni flutti Hulda Sædís Bryngeirsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, stutt erindi um kynbundið ofbeldi, en Hulda hefur unnið rannsókn um ofbeldi í nánum samböndum.

Hulda Snædís flutti erindi.
Þurfti aðstoðarmanneskju til að halda ræðu Huldu þurri á meðan á ávarpinu stóð, enda snjóaði hressilega.

Erindi Huldu, birt hér með hennar leyfi:

Komið þið sæl öll. Ég er hingað komin til að tala um ofbeldi, en ekki síður til að vekja máls á möguleikum þolenda á því að eflast og vaxa þrátt fyrir reynslu af ofbeldi.

Kynbundið ofbeldi er alvarlegt og útbreitt samfélagslegt vandamál á heimsvísu og algengasta birtingarmynd þess er ofbeldi í nánu sambandi, þar sem gerandinn er núverandi eða fyrrverandi maki. Útbreiðsla og algengi ofbeldis í nánu sambandi er slíkt og neikvæðar afleiðingar þess á lýðheilsu svo alvarlegar að því hefur verið líkt við heimsfaraldur. 

Allt þetta vitum við. Okkur er kunnugt um neikvæð áhrif ofbeldis í nánum samböndum á heilsu kvenna. Við vitum að börnin verða einnig fyrir neikvæðum áhrifum af ofbeldinu. Við heyrum af því frábæra starfi sem verið er að vinna í mismunandi úrræðum sem styðja konur sem eru í ofbeldissamböndum eða hafa sögu um slík sambönd. Og öll öndum við léttar þegar kona nær að losna út úr ofbeldissambandi. En hvað tekur þá við? 

Ef við hugsum nú málið út frá þeirri vitneskju sem við búum yfir varðandi ofbeldi í nánum samböndum: Er þá hægt að gera ráð fyrir því að allt verði gott þegar konu tekst að flytja frá ofbeldismanni? Hverfa eftirstöðvar ofbeldisins þá eins og dögg fyrir sólu? Öðlast kona þá sjálfstraust, fulla starfsorku, framtíðarsýn og sjálfstæði eftir jafnvel áralangt ofbeldi og niðurbrot? Verður hún alheilbrigð á eins og einni nóttu? Við vitum hvert svarið er. Svarið er nei. Í flestum tilfellum er sjálfsmyndin alvarlega löskuð, starfsorkan skert, framtíðarsýnin takmörkuð og óöryggið í hæstu hæðum. 

Í gegnum árin hef ég kynnst fjölmörgum konum í þessari stöðu. Neikvæð áhrif ofbeldis í nánu sambandi eru margslungin, þau fylgja mörgum konum eins og skuggi árum saman og jafnvel ævilangt og skerða um leið lífsgæði þeirra og afkomenda þeirra, því flestar þessar konur eru mæður og ömmur. 

Það er ekki sanngjarnt að kona eigi ekki kost á því að njóta lífsins til fulls vegna þess að einhver annar tók þá ákvörðun að beita hana ofbeldi. Eða vegna þess að hún fær ekki frið fyrir gerandanum þó sambandinu sé lokið. Eða af því að hún er fátæk sökum þess að eigum hennar var eytt að henni forspurðri í óendanlega löngu skilnaðarferli. Eða af því að hún getur ekki unnið fyrir sér og börnum sínum sökum heilsubrests af völdum ofbeldis. Eða af því að hún finnur svo sterkt fyrir þjáningu barnanna. Eða af því að sjálfsmyndin er svo brotin að konan getur ekki borið hönd yfir höfuð sér og getur ekki sótt þá heildrænu aðstoð sem hún þarf. Svona er hægt að halda lengi áfram. Þetta er bæði ömurleg og ósanngjörn staða. 

Eftir að hafa unnið með konum í þessari stöðu og orðið vitni að þessu óréttlæti, kveiknaði áhugi minn á því að rannsaka hvort konur ættu möguleika á því að eflast og vaxa þrátt fyrir reynslu sína af ofbeldi í nánum samböndum, sem gæfi þeim þá möguleika á því að eiga betra líf. 

Efling og vöxtur í kjölfar áfalla (e. post-traumatic growth) er þekkt hugtak og felur í sér:

  • Jákvæða sálfræðilega breytingu hjá einstaklingi eftir mikla erfiðleika og áföll; aukinn persónulegan styrk; aukna ánægju í samböndum við annað fólk; og  jákvæða breytingu á lífssýn þar sem viðkomandi kemur auga á nýja möguleika í lífinu. 
  • Lífsreynslan, þrátt fyrir að vera neikvæð í sjálfri sér, hefur þegar upp er staðið haft ákveðinn tilgang fyrir viðkomandi sem manneskju. 

Ég var alls ekki viss um að konur sem reynt höfðu ofbeldi í nánu sambandi gætu upplifað slíka eflingu og vöxt eins og hér var lýst og ýmsir áttu erfitt með að sjá fyrir sér að þetta tvennt gæti farið saman, enda lítið verið rannsakað, bæði hér á landi og erlendis. En viti menn, tuttugu og tvær konur sem höfðu náð að eflast og vaxa eftir ofbeldi í nánu sambandi höfðu samband og vildu taka þátt í rannsókninni. Megintilgangurinn var að skoða hvernig efling og vöxtur lýsti sér meðal þessara kvenna sem allar höfðu þurft að þola hinar ýmsu tegundir ofbeldis í nánu sambandi. 

Sú breyting sem konurnar upplifðu við að eflast og vaxa fól í sér að þær litu sjálfar sig jákvæðari augum en áður og upplifðu jákvæðari tilfinningar gagnvart sjálfum sér. Þær sögðust hafa lært að setja öðru fólki skýr mörk en um leið vera umburðarlyndari og hjálpsamari í garð annarra. Þær lýstu framtíðarsýn sinni sem bjartri, og sögðust búa yfir seiglu og ákveðni, sem þær töldu vera hluta af því að vaxa og eflast.  

Þær sögðu einnig frá neikvæðum eftirstöðvum ofbeldisins sem fylgdu þeim áfram þrátt fyrir allt. Þær lýstu því hvernig kveikjur eða „triggerar“ sem minntu á ofbeldið gátu haft neikvæð áhrif á líðan þeirra. Að þurfa að vera í áframhaldandi samskiptum við gerandann reyndist oft erfitt, sem og sorg þeirra yfir því sem börnin þeirra höfðu þurft að upplifa og þurftu jafnvel að halda áfram að upplifa. Þær glímdu margar við heilsufarsvandamál og oft var stutt í vantraustið gagnvart öðru fólki. Þessir eftirstöðvar ofbeldisins gátu haft í för með sér „þunga daga“ fyrir konurnar inn á milli. 

En kona sem hefur náð að eflast og vaxa er meðvituð um þessar neikvæðu eftirstöðvar ofbeldis. Hún hefur fundið sínar leiðir til að bregðast við þeim og nýtir sér þau bjargráð sem gagnast henni við að komast aftur á beinu brautina. 

Aðspurðar töldu þær helstu hvatana að eflingu og vexti hafa verið þá að búa yfir innri styrk og þrautseigju. Einnig að leita sér hjálpar, eiga öruggt húsaskjól og búa við fjárhagslegt öryggi. Þær lögðu sig fram við að sýna sjálfum sér kærleika og skilning, settu öðrum mörk og tóku stjórnina í lífi sínu. Stuðningur sem þær fengu frá umhverfinu reyndist hjálplegur, svo framarlega sem hann var veittur á þeirra forsendum. 

Þær hindranir sem konurnar mættu á leið sinni að eflingu og vexti voru af ýmsu tagi. Neikvæðar tilfinningar þeirra og viðhorf í eigin garð, heilsufarsvandamál og krefjandi aðstæður í lífi þeirra gátu reynst stórar hindranir á þessari vegferð. Gerendurnir áttu sinn þátt í því að hindra eflingu og vöxt kvennanna, sem og lög, reglur og hið félagslega regluverk, sem konunum var gert að beygja sig undir oft gegn vilja sínum og betri vitund. 

Hér áðan var ofbeldi í nánum samböndum líkt við heimsfaraldur sökum útbreiðslu, algengi og alvarleika. Afleiðingar ofbeldis geta haft varanleg neikvæð áhrif á lífsgæði þolenda, afkomenda þeirra og á samfélagið í heild. Sérstaklega ef ekki næst að kveikja von um betri tíð. Sættum við okkur virkilega við þau málalok? Má ekki stilla betur saman strengi og taka þessi mál fastari tökum?

Markmið mitt með þessu erindi er að vekja athygli á því að möguleikinn á því að eflast og vaxa eftir ofbeldi í nánu sambandi er fyrir hendi. Þær tuttugu og tvær konur sem tóku þátt í þessari rannsókn sögðu að ástæðan fyrir því að þær voru tilbúnar til að setjast niður með bláókunnugri manneskju og segja sögu sína væri sú að þær vildu kveikja von meðal kvenna sem hefðu þurft að þola ofbeldi í nánu sambandi. Von um að möguleikinn á því að eiga gott og innihaldsríkt líf væri þrátt fyrir allt fyrir hendi. 

Það er einmitt mikilvægt markmið að kveikja þessa von. Að vinna markvisst að því að láta hana verða að veruleika. Það er ekki aðeins mikilvægt fyrir þolendur ofbeldis, heldur fyrir okkur öll sem búum saman í samfélagi mannanna.

Þessi rannsókn er tileinkuð öllum þeim hugrökku konum sem hafa búið við ofbeldi inni á heimilum sínum og þeim konum sem enn eru í þeirri stöðu. 

Megi þær allar finna leiðina til betra lífs.

Takk fyrir að hlusta.

Hulda Sædís Bryngeirsdóttir. 

Höfundur er hjúkrunarfræðingur MS, PhD og starfar sem lektor við heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó