NTC

Litla skrímslið og stóra skrímslið frumsýnt í Hofi

Litla skrímslið og stóra skrímslið frumsýnt í Hofi

Leikfélag Akureyrar frumsýnir barnaverkið Litla skrímslið og stóra skrímslið í Menningarhúsinu Hofi laugardaginn 13 janúar.

Verkið um Litla skrímslið og stóra skrímslið er byggt á vinsælum bókum Áslaugar Jónsdóttur en þær hafa slegið í gegn hjá börnum frá fyrstu útgáfu árið 2004 og verið þýddar á ótal tungumál.

Leikritið Litla skrímslið og stóra skrímslið er falleg og einlæg saga um vináttu og samskipti. Verkið er sérstaklega ætlað yngri börnum þó fullyrða megi að öll fjölskyldan muni hafa gaman að uppátækjum og hjartnæmu sambandi skrímslanna.

Margrét Sverrisdóttir og Hjalti Rúnar Jónsson leika litla skrímslið og stóra skrímslið. Leikstjóri er Jenný Lára Arnórsdóttir. Um leikmynd og búninga sér Björg Marta Gunnarsdóttir en um tónlistina Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Gervin eru í höndum Hörpu Birgisdóttur en um hljóð og ljós sjá Árni F. Sigurðsson og Benni Sveinsson.

Þetta er í annað sinn sem leikritið um Litla skrímslið og stóra skrímslið er sýnt í atvinnuleikhúsi en verkið var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu árið 2011 í leikstjórn Þórhalls Sigurðssonar við frábærar undirtektir.

VG

UMMÆLI

Sambíó