Leikfélag Verkmenntaskólans á Akureyri stendur núna í stífum æfingum fyrir frumsýningu sína á morgun, föstudagskvöldið 21.október. Leikhópurinn er að setja upp söngleikinn Litlu Hryllingsbúðina sem fjallar um munaðarleysingjann Baldur sem lifir heldur óspennandi lífi þar til hann kaupir sér dularfulla plöntu. Það þarf eflaust ekki að segja betur frá söguþræðinum fyrir söngleikjaunnendur en aðrir sem hann ekki þekkja þurfa einfaldlega að kíkja á sýninguna.
Áheyrnaprufur voru haldnar þann 30.ágúst og í framhaldinu hófust stífar æfingar fyrir sýninguna. Alls koma tæplega 40 manns að sýningunni og uppsetningu hennar en leikararnir eru 12 talsins. Sýningin er sú stærsta hingað til á vegum leikfélagsins en einnig verður þetta í fyrsta skiptið sem að þau setja upp sýningu í Samkomuhúsinu á Akureyri. Þetta markar því vissulega sannkölluð tímamót í sögu leikfélagsins.
Kaffið ræddi við leikstjóra sýningarinnar, Birnu Pétursdóttur, um undirbúning hennar.
Aðspurð hvort að áhorfendur megi vænta þess að söngleikurinn byggi á fyrri uppsetningum hans hérlendis segir hún að þau hafi notast við upphaflegu þýðingu verksins, eftir Einar Kárason. Textarnir séu þó úr nýrri þýðingum og eitthvað stílfærðir af þeim sjálfum.
Þá gera þau sérstaklega í því að auka hryllinginn enn meira en nálgast þó uppsetninguna ekki á óhefðbundinn hátt.
Leikmyndin krefjandi
Það hlýtur að liggja í augum uppi að það sé alls ekki vandalaust að gera leikmyndina fyrir þetta tiltekna verk og þá sérstaklega plöntuna sjálfa, sem talar, syngur og étur. Birna útskýrir að það hafi vissulega verið krefjandi að gera plöntuna en með snillinga að vopni, þær Soffíu og Hrefnu, sem hafa staðið að plöntugerðinni síðustu vikur, gekk þetta allt saman upp.
Birna virðist afar glöð með afraksturinn og hvetur alla til þess að kaupa sér miða á verkið.
,,Þetta er búið að vera afar lærdómsríkt ferli, en alveg brjálæðislega skemmtilegt. Hópurinn er afskaplega þéttur og kraftmikill. Við hvetjum alla til að kaupa sér miða á einn vinsælasta söngleik allra tíma.“
Það verður afar spennandi að sjá hvernig leikfélaginu tekst í sinni uppsetningu á verkinu en söngleikurinn hefur áður verið settur upp þrisvar sinnum hérlendis í atvinnuleikhúsum.
Hægt er að kaupa miða inn á tix.is eða mak.is.
UMMÆLI