Litir Íslands á sænskri grundu

Litir Íslands á sænskri grundu

Laugardaginn 19. september verður opnuð í bænum Hälleforsnäs í Svíþjóð samsýning 9 íslenskra myndlistarmanna undir yfirskriftinni Litir Íslands eða Islandsfärger. Á sýningunni eru tví- og þrívíð textílverk, bókverk, tvívíð myndverk, málverk, vatnslitamyndir, samklippur og pappírslágmyndir.

Þau sem sýna eru Anna Gunnarsdóttir, Eiríkur Arnar Magnússon, Guðmundur Ármann Sigurjónsson, Guðrún H. Bjarnadóttir (Hadda), Heiðdís Hólm Guðmundsdóttir, Ívar Freyr Kárason, Jónborg Sigurðardóttir (Jonna), Ragnar Hólm Ragnarsson og Sigurður Magnússon.

Vegna Covid-19 faraldursins verður opnun sýningarinnar með óhefðbundnum hætti og mælst til þess að ekki verði fleiri en 10 saman í sýningarrýminu. Þeir íslensku listamenn sem ætluðu að vera við opnun í Hälleforsnäs hafa lagt þau áform á hilluna en í staðinn verður sent út beint á netinu þar sem mun fara fram samtal nokkurra þátttakenda í sýningunni, sænskra listamanna og listnema.

Sýningin í Hälleforsnäs er til komin vegna samstarfs Gilfélagsins á Akureyri við hóp sænskra listamanna sem sýndi í Deiglunni á Akureyri haustið 2018.

Sýningin stendur til 22. nóvember og er opin að sænskum tíma á virkum dögum frá kl. 11-17 og um helgar frá kl. 10-14.

Verkefnið hlaut styrk úr Menningarsjóði Akureyrar, frá Svensk-islänska samarbetsfonden og úr Lettereska sjóðnum.

Mynd: Sex af níu listamönnum sem sýna í Svíþjóð við kassann sem flutti verk þeirra utan. Frá vinstri: Ragnar Hólm Ragnarsson, Ívar Freyr Kárason, Jónborg Sigurðardóttir (Jonna), Anna Gunnarsdóttir, Guðrún H. Bjarnadóttir (Hadda) og Guðmundur Ármann Sigurjónsson.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó