Listsköpunarhátíðin Hömlulaus 2016 verður dagana 7.-11. desember í Ungmennahúsinu – Rósenborg á Akureyri. Þetta er í annað sinn sem hátíðin er haldin en um er að ræða fimm daga listasmiðjur undir handleiðslu starfandi akureyrskra listamanna. Alla dagana er unnið frá kl. 16-20, nema á laugardag þegar unnið er frá kl. 10-17.
Skapandi textíl/fatahönnunarsmiðja verður í höndum Anítu Hirlekar sem leiðir þátttakendur í gegnum ferlið við hönnun fatalínu og kennir helstu undirstöðuatriði hönnunarferilsins. Nemendur fá innsýn í heim fatahönnunar frá textílhönnun og skissuvinnu yfir í hönnun fatnaðar. Einnig skoða þátttakendur endurnýtingu fatnaðar. Anita Hirlekar lærði fatahönnun í London og hefur unnið með nokkrum af helstu hönnunarfyrirtækjum í London sem og á Ítalíu.
Hömlulaust leiklistarnámskeið verður í höndum Birnu Pétursdóttur sem vinnur með sögur úr eigin lífi og reynsluheimi þátttakenda. Úr verður handrit og gert myndband. Birna lærði leiklist í London og hefur frá útskrift unnið á sviði en einnig við þáttagerð fyrir sjónvarp.
Myndlistarsmiðjan verður í höndum Earl James Cistam sem lærði myndlist í Myndlistaskólanum á Akureyri. Hann leggur áherslu á tjáningu og almenna kunnáttu í listinni, tekur fyrir notkun og samspil forms og lita og leiðir þátttakendur í gegnum ferlið frá hugmynd í fullbúið veggverk. Helsta markmið Cistam er að koma hugmyndaflugi þátttakenda af stað og skapa vettvang fyrir unga listamenn til að koma og spreyta sig í skapandi umhverfi.
Raftónlistarsmiðja verður í höndum Sigga Sigtryggssonar (Sadjei) sem kennir undirstöðuatriðin í Ableton Live forritinu, uppbyggingu trommutakta frá grunni, almenna notkun hljóðgervla og hvernig nota má hljóðbúta úr úmsum áttum á skapandi hátt. Siggi er starfandi tónlistarmaður og upptökustjóri, lærði í London og hefur unnið með nokkrum af helstu plötufyrirtækjum heims.
Allar nánari upplýsingar veita þeir Kjartan Sigtryggsson (kjartan@akureyri.is, sími 852 1255) og Jóhann Malmquist (johannm@akureyri.is) í Ungmennahúsinu – Rósenborg í síma 460 1240 frá kl. 8-22.
UMMÆLI