NTC

Listnám-kvöldskóli í fyrsta skipti í VMA

Listnám-kvöldskóli í fyrsta skipti í VMA

Í haust verður í fyrsta skipti boðið upp á listnám- kvöldskóla í VMA. Námið er um 70 einingar og verður kennt á tveimur önnum, núna á haustönn og vorönn 2025. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef VMA þar sem segir að kvöldskólinn hafi það að markmiði að opna heim sjónlista fyrir nemendum og búa þá sem það kjósa undir nám á háskólastigi á sviði skapandi greina sem byggja á sjónlistagrunni.

Tólf nemendur eru skráðir í námið og er vert að taka fram að enn er pláss fyrir fleiri nemendur. Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband við skólann sem fyrst og fá frekari upplýsingar. Hér eru upplýsingar á heimasíðu skólans um námið og einnig veita upplýsingar:
Sigurður Hlynur Sigurðsson, áfangastjóri – sigurdur.h.sigurdsson@vma.is 
Véronique Legros, brautarstjóri listnáms- og hönnunarbrautar – veronique.legros@vma.is
Borghildur Ína Sölvadóttir, kennari á listnáms- og hönnunarbraut – borghildur.i.solvadottir@vma.is

Námið verður þannig byggt upp að á hvorri önn verða tvær átta vikna námslotur. Í hvorri námslotu verða kenndir fjórir áfangar, þar af þrír verklegir og einn bóklegur. Kennt verður þrjá daga vikunnar, mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga kl. 16:15-20:55. Um kennsluna sjá kennarar á listnáms- og hönnunarbraut VMA. Kennarar núna á haustönn verða Björg Eiríksdóttir, Véronique Legroso og Helga Björg Jónasardóttir. Kennsla hefst nk. mánudag, 26. ágúst.

„Með því að bjóða upp á þetta nám núna vill VMA koma til móts við þá sem hafa löngun til þess að efla færni sína á ýmsum sviðum sjónlista en hafa ekki átt þess kost að sækja slíkt nám í dagskóla,“ segir í tilkynningu VMA.

Borghildur Ína Sölvadóttir, kennari á listnáms- og hönnunarbraut, sem hefur ásamt fleirum unnið að skipulagi og uppsetningu þessa náms, segir að áhersla verði lögð á verklegt nám en vitaskuld verða líka bóklegir áfangar. Nemendur fái eins og í dagskólanum innsýn í fjölmarga og ólíka þætti í listsköpun og markmiðið sé að þeir móti sinn eigin farveg og áhugasvið í sjálfstæðri sköpun. Nemendum gefist kostur á því að vinna ferilmöppur er nýtist til umsóknar um framhaldsnám í listum og/eða hönnun á háskólastigi.

„Við höfum lengi stefnt á slíkt nám og því er afar ánægjulegt að þetta sé nú að verða að veruleika. Við höfum fulla trú á því að þetta fyrsta ár muni ganga vel og stefnan er auðvitað  að þessi nýjung í listnámi í VMA sé komin til að vera og næsta haust getum við farið af stað með nýjan námshóp,“ segir Borghildur Ína á vef skólans og bætir við að VMA sé ekki að finna upp hjólið í þessum efnum, sambærilegt nám hafi til dæmis verið í boði í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Þar hafi námið raunar verið í boði í dagskóla en nú hafi FB ákveðið að færa það einnig í kvöldskóla.

„Við hlökkum mikið til þess að takast á við þetta verkefni og stækka nemendahópinn okkar á listnáms- og hönnunarbraut,“ segir Borghildur Ína.

Sambíó

UMMÆLI