Listasýningin „Salon des Refuses/Þeim sem var hafnað“ opin í DeiglunniSérstaklega mörg og fjölbreytt verk eru til sýnis í Deiglunni um þessar mundir. Ljósmynd: Rúnar Freyr Júlíusson

Listasýningin „Salon des Refuses/Þeim sem var hafnað“ opin í Deiglunni

Gilfélagið stendur nú fyrir samsýningu norðlenskra listamanna í Deiglunni að nafni “Salon Des Refuses” eða “Þeim sem var hafnað” á íslensku. Sýningin opnaði í gærkvöldi og að sögn Fríðu Karlsdóttur sýningarstjóra gekk opnunarkvöldið afskaplega vel og var mæting góð. 

Sýningin er opin alla daga á milli 14 og 17 þar til á sunnudaginn 11. Júní næstkomandi.

Myndverkin til sýnis eru af hinum ýmsu lisrænu stílum og stefnum. Verk: Ásta Bára. Ljósmynd: Rúnar Freyr Júlíusson.

Alls eru til sýnis 72 verk eftir þessa 27 listamenn, flestir þeirra meðlimir Gilfélagsins: Anna Maria Rudnicka Ostrowska, Arna G. Valsdóttir, Atli Tómasson, Ásta Bára, Díana Rós Brynjudóttir, Elísabet Asgríms, Fanný María Brynjarsdóttir, Guðmundur Ármann, Guðrún Ósk Stefánsdóttir, Guja Nóa, Hadda, Helgi Þórsson, Ingiríður Sigurðardóttir, Jóna Bergdal, Jónasína Arnbjörns, Karólína Baldvinsdóttir, Kristín Dýrfjörð, Máni, Ólafur Sveinsson, Ragnar Hólm, Rósa Njálsdóttir, Sara Kwiek, Sara Sif Kristinsdóttir, Sigmar Jósepsson, Sigrún Birna Sigtryggsdóttir og Þórarinn Örn Egilsson.

Eitt af þrem verkum Sigmars Jósepssonar á sýningunni. Ljósmynd: Rúnar Freyr Júlíusson.

Nafnið “Þeim sem var hafnað” vísar til þess að á sama tíma og þessi sýning í Deiglunni er sambærileg samsýning norðlenskra listamanna í gangi á Listasafni Akureyrar hinu megin við götuna. Sú sýning fer fram á tveggja ára fresti og hefur verið hefð fyrir því a.m.k. síðustu sex ár að hafa þessa sýningu í Deiglunni á sama tíma.

Helsti munurinn á sýningunum tveim er að sýningin á Listasafninu er niðurstaða umsóknarferlis þar sem ýmsum þurfti að hafna, en allir sem sóttu um að taka þátt í sýningunni í Deiglunni fengu að gera það. “Hér eru þau sem ekki komust að á Listasafninu” sögðu nokkrir listamennirnir við fréttaritara Kaffisins, en hlógu þó. Sannleikurinn er sá að flestir sem sýna verk á þessari sýningu sóttu ekki um að sýna hjá Listasafninu af hinum ýmsu ástæðum.

Þó að meirihluti verkanna séu málverk eru líka önnur listform til sýnis líkt og þessir skúlptúrar eftir Sigrúni Birnu Sigtryggsdóttur. Ljósmynd: Rúnar Freyr Júlíusson.

Það að hafa nafn sýningarinnar á frönsku vísar til hefðar frá Frakklandi, þar sem listamenn sem hafnað var frá stórri árlegri sýningu tóku sig saman og héldu sína eigin sýningu í mótmælaskyni. Þeir listamenn sem þar sýndu verk sín hafa margir hverjir síðan orðið mun frægari og virtari en þeir sem voru upphaflega valdir fram yfir þá.

Hafi lesendur áhuga á að versla einhver verkin segir Fríða Karlsdóttir að mörg þeirra séu vissulega til sölu, en það sé undir hverjum listamanni komið og þurfi að útkljá það við þann listamann sem um er að ræða. 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó