Listasafnið á Akureyri sýnir á Hjalteyri

Arna Valsdóttir

Laugardaginn 16. september kl. 15 opnar Listasafnið á Akureyri sýningu á vídeóverkum úr safneign í Verksmiðjunni á Hjalteyri. Verksmiðjan er afar hrátt húsnæði og skapar þar af leiðandi heillandi umgjörð um þessa tegund myndlistar. Vídeóverk hafa ekki verið áberandi í safneign Listasafnsins en á síðustu árum hefur orðið þó nokkur breyting þar á. Sýningin er liður í því að sýna verk úr safneigninni í nýju ljósi og er unnin í samvinnu Listasafnsins og Verksmiðjunnar á Hjalteyri.

Listamenn sem eiga verk á sýningunni eru: Arna Valsdóttir, Ine Lamers, Klængur Gunnarsson, Þóra Sólveig Bergsteinsdóttir.
Sýningin stendur til 1. október og verður opin þriðjudaga-sunnudaga kl. 14-17.

Arna Valsdóttir vann verkið Staðreynd 6 – Samlag sérstaklega fyrir yfirlitssýningu á vídeóverkum sínum í Listasafninu á Akureyri 2014. Verkið var tekið upp í Mjólkursamlagi MS og í Listasafninu, sem áður var Mjólkursamlag KEA, og lýsir minningum og tilfinningum listakonunnar.

Not She eftir Ine Lamers er frá 2005 og var sýnt á sýningu Listasafnsins Fólk 2015. Ine sýnir áhorfandanum hvernig menn rugla saman raunveruleika og blekkingu þar sem einstaklingar reyna að bæta brotna sjálfsmynd með því að fara í gervi annarra.

Klængur Gunnarsson sýndi verkið Hylling á Haustsýningu Listasafnsins 2015. Snjórinn, myrkrið og hin norðlenska vetrarbirta spila stóran þátt í verkinu. Klængur leitast við að miðla skynjun sinni og  áhrifum frá sínu nánasta umhverfi.

Þóra Sólveig Bergsteinsdóttir sýndi verkið Óður til náttúrunnar einnig á Haustsýningunni 2015. Þóra Sólveig vinnur gjarnan með gjörninga, oft í samvinnu við aðra eins og í verkinu sem hér er til sýnis, þar sem hún rannsakar líkama, hreyfingu og náttúru.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó