Listasafnið á Akureyri: Tvær nýjar sýningar verða opnaðar á laugardaginnBergþór Morthens, Sumarnótt, 2021.

Listasafnið á Akureyri: Tvær nýjar sýningar verða opnaðar á laugardaginn

Laugardaginn 29. maí kl. 12-17 verða tvær nýjar sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri, annars vegar samsýning norðlenskra myndlistarmanna, Takmarkanir, og hins vegar sýning á verkum úr safneign Listasafnsins, Nýleg aðföng. Sýningarstjóri beggja sýninga er Hlynur Hallsson.

Þetta er í fjórða sinn sem tvíæringur, sýning á verkum norðlenskra listamanna, er haldinn í Listasafninu á Akureyri. Að þessu sinni var unnið út frá þemanu takmarkanir, sem er augljóslega bein tilvísun í ástandið í heiminum þessi misserin.

Listasafnið auglýsti eftir umsóknum um þátttöku í sýningunni og dómnefnd valdi verk eftir 17 ólíka listamenn af þeim 44 sem sóttu um. Titillinn Takmarkanir er misjafnlega augljós í verkunum, en sum þeirra voru unnin sérstaklega fyrir sýninguna.

Sýningunni er þannig ætlað að gefa innsýn í þá fjölbreyttu flóru myndlistar sem tengist Norðurlandi og vekja umræður um stöðu norðlenskra listamanna og myndlistar almennt. Tvíæringurinn getur, ef vel tekst til, orðið grunnur rannsókna og sköpunar á sviði myndlistar og um leið hvatning og tækifæri. Safnaráð styrkir sýninguna sérstaklega.

Listamenn: Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Auður Lóa Guðnadóttir, Árni Jónsson, Bergþór Morthens, Brák Jónsdóttir, Egill Logi Jónasson, Guðmundur Ármann Sigurjónsson, Hekla Björt Helgadóttir, Hrefna Harðardóttir, Íris Ólöf Sigurjónsdóttir, Jonna – Jónborg Sigurðardóttir, Joris Rademaker, Jón Laxdal Halldórsson, María Sigríður Jónsdóttir, Sigurður Mar Halldórsson, Stefán Boulter, Tanja Stefanovic.

Nýleg aðföng

Eitt af meginhlutverkum listasafna er að safna myndlist og miðla safneigninni. Því miður er ekkert fjármagn áætlað á fjárhagsáætlun Listasafnsins á Akureyri til kaupa á listaverkum og þannig hefur það verið í meira en áratug. Þetta stendur til bóta, enda mikilvægt að safna með reglubundnum hætti listaverkum sem endurspegla listasöguna. Nýlega voru lögð fram drög að samþykkt um listaverkakaup í stjórn Akureyrarstofu sem jafnframt er stjórn Listasafnsins.

Listasafnsráð fagnar framkomnum drögum og bendir á að hjá Listskreytingasjóði ríkisins eru fordæmi fyrir því að 1% af kostnaði við nýbyggingar og endurbyggingarverkefni er veitt til listaverkakaupa. Það væri mikill hagur í því að aftur yrðu keypt reglulega verk til að byggja upp safneign Listasafnsins. Listasafninu hafa aftur á móti borist margar góðar gjafir á síðustu árum og byggir sýningin Nýleg aðföng á hluta af þeim verkum. Safnstjóri og fulltrúar í Listasafnsráði fjalla um og taka ákvarðanir er varða móttöku gjafa. Ákvörðunin byggir á söfnunarstefnu safnsins, markmiðum þess og stöðu safneignar á hverjum tíma.

Listamenn: Elín Pjet Bjarnason, Friðgeir Helgason, Jessica Tawczynski, Louisa Matthíasdóttir, Magnús Helgason, Óli G. Jóhannsson, Tomas Colbengtson.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó