NTC

Listasafnið á Akureyri: Hér og þar II, opnun á Heilsuvernd hjúkrunarheimili, Hlíð 

Listasafnið á Akureyri: Hér og þar II, opnun á Heilsuvernd hjúkrunarheimili, Hlíð 

Föstudaginn 8. september kl. 14 opnar Listasafnið á Akureyri sýninguna Hér og þar II á Heilsuvernd hjúkrunarheimili, Hlíð. Á opnun mun starfsfólk Listasafnsins segja frá sýningunni, verkunum og listamönnunum.

Listasafnið og Heilsuvernd vinna saman að því að fræða og gleðja íbúa, starfsfólk og gesti Hlíðar með tveimur myndlistarsýningum í ár og leiðsögn þeim tengdum. Sú fyrri var opnuð 10. febrúar og stóð til 4. júní, en þar mátti sjá verk eftir Jón Laxdal, Roj Friberg og Þorvald Þorsteinsson. Að þessu sinni verða sýnd verk eftir listamennina Einar Helgason, Guðmund Ármann Sigurjónsson, Lilý Erlu Adamsdóttur og Tryggva Ólafsson. Öll hafa þau unnið með náttúru og mannlíf á einn eða annan hátt í verkum sínum.

Þessum sýningum er ætlað að viðhalda menningarlegri tengingu íbúa Hlíðar við myndlistarsögu bæjarins og vekja upp minningar og samræðugrundvöll um myndlist og samfélagið. Samstarf við ólíka hópa er stækkandi þáttur í starfsemi Listasafnsins á Akureyri og sífellt er leitað leiða til að útvíkka starfsemina og gera safneignina aðgengilega öllum aldurshópum. Í ár var því bryddað upp á þeirri nýbreytni að vinna heildstæðar sýningar frá grunni og setja upp utan safnsins.

Sýningin er öllum opin og mun standa til 7. janúar 2024.

Einar Helgason (1932-2013) lærði í Myndlista- og handíðaskólanum í Reykjavík og í Listakademíunni í Osló. Hann starfaði lengi sem myndmenntakennari Gagnfræðaskólans á Akureyri og sýndi verk sín reglulega. Einar er þekktastur fyrir vatnslitamyndir sínar þar sem hann málaði nærumhverfið og var næmur á birtu og árstíðir. Vandvirkni og gott jafnvægi í myndbyggingu eru einkennandi fyrir listamanninn og gerir það myndir hans auðþekkjanlegar. Hann hafði dempaðan og fágaðan litaskala, notaði marga liti sem féllu sérlega vel hver að öðrum og mörg misþykk pensilstrik sem bera vitni öguðum og vandvirkum kunnáttumanni. Einar sýndi í Listasafninu á Akureyri skömmu fyrir aldamótin.

Guðmundur Ármann Sigurjónsson (f. 1944) ólst upp í Reykjavík, en býr og starfar sem listmálari og grafíklistamaður á Akureyri. Hann nam myndlist í Reykjavík og í Valand akademíunni í Gautaborg. Guðmundur byrjaði ferilinn sem sósíal-realískur málari, en hefur síðan þróað málverkið í blöndu af fígúratífu, abstrakt formum og landslagi. Hann hefur sett mark sitt á myndlistarsögu bæjarins bæði sem kennari og með reglulegum sýningum þar sem sjá má hvernig hann þróar sína list á ferskan og spennandi máta. Guðmundur varð fyrst þekktur á Akureyri þegar hann vann dúkristur af húsum í innbænum. Listasafnið á Akureyri hefur sýnt verk hans bæði á einkasýningum og á samsýningum.

Lilý Erla Adamsdóttir (f. 1985) lauk BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2011 og mastersnámi í listrænum textíl frá Textilhögskolan í Borås í Svíþjóð 2017. Hún vinnur á mörkum myndlistar, hönnunar og listhandverks. Yfirborð er henni hugleikið, hvort sem um ræðir yfirborð náttúrunnar eða mennskunnar. Vinnuferli Lilýar einkennist af stöðugu samtali við efnið, þar sem eitt leiðir af öðru. Þegar kemur að samspili lita og efniseiginleika nýtir hún eiginleika tuft-tækninnar til skoðunar á þræðinum og sjónrænna áhrifa hans. Hún talar ýmist um verkin sem loðin málverk eða dansandi útsaum. Sýning á verkum Lilýar var sett upp í Listasafninu á Akureyri 2020.

Tryggvi Ólafsson (1940-2019) lærði við Myndlista- og handíðaskólann 1960-1961 og við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn fram til 1966. Hann vann lengst af að list sinni í Danmörku þar sem hann bjó í rúm 40 ár. Snemma á ferlinum sneri Tryggvi sér að popplist þar sem hann nýtti sér efni og form úr fortíð og nútíð. Stíllinn er auðþekkjanlegur, verkin ljóðræn, mjög persónuleg og stundum pólitísk. Með árunum varð Tryggvi djarfari í bæði myndmáli og litanotkun. Oft notaði hann svokallað rusl sem hann fann og teiknaði nákvæma uppröðun þess fyrir framan sig, þannig skapaði hann eitthvað eftirsóknarvert úr engu. Árið 2007 flutti hann aftur til Íslands og bjó þar síðustu 12 ár ævinnar. Árið 2010 var sett upp yfirlitssýning á verkum hans í Listasfninu á Akureyri.

VG

UMMÆLI

Sambíó