Framsókn

Listasafnið á Akureyri: Fimm sýningar opnaðar á laugardaginn

Listasafnið á Akureyri: Fimm sýningar opnaðar á laugardaginn

Laugardaginn 6. júní kl. 12 verða fimm sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri:

Brynja Baldursdóttir – Sjálfsmynd
Heimir Björgúlfsson – Zzyzx
Jóna Hlíf Halldórsdóttir – Meira en þúsund orð
Samsýning – Hverfandi landslag
Snorri Ásmundsson – Franskar á milli

Sendiherra Finnlands á Íslandi, Ann-Sofie Stude, flytur opnunarávarp kl. 15.10 og í kjölfarið opnar Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, sýningarnar formlega. Sunnudaginn 7. júní verður listamannaspjall með Jónu Hlíf Halldórsdóttur kl. 14 og Önnu Gunnarsdóttur, sýningarstjóra, kl. 15.


Laugardaginn 27. júní kl. 15: Listamannaspjall með Snorra Ásmundssyni.
Sunnudaginn 12. júlí kl. 15: Listamannaspjall með Brynju Baldursdóttur.


Brynja Baldursdóttir – Sjálfsmynd

„Listsköpun mín sprettur upp af viðleitni minni til að myndgera innra landslag mannsins, hið sammannlega og einstaka sem hluta af stærri heild. Sjálfsmyndaserían er summa þriggja þátta; líkama, hugar og sálar.“

Brynja Baldursdóttir (f. 1964) stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1982-1986. Hún stundaði mastersnám við Royal College of Art í Lundúnum 1987-1989 og Ph.D. nám við sama skóla 1989-1993. Brynja hefur sýnt víða hér heima og erlendis. Hennar helstu listform eru bóklist og lágmyndir. Eftir hana liggur fjöldi bókverka, bæði  bóklistaverk og hannaðar bækur. Hún hefur unnið til ýmissa verðlauna fyrir grafíska bókahönnun ásamt því að vera tilnefnd til Menningarverðlauna DV 1993 fyrir bóklist.


Heimir Björgúlfsson – Zzyzx

Zzyzx er sýning sem byggð er á sögu og umhverfi Zzyzx-svæðisins í Mojave-eyðimörkinni í Kaliforníu. Hryggjarstykkið er ný ljós- og klippimyndasería, en einnig eru til sýnis önnur verk sem tengjast viðfangsefninu beint eða óbeint.

Heimir Björgúlfsson er fæddur í Reykjavík 1975. Hann lauk BA-gráðu í myndlist við Gerrit Rietveld Listaháskólann í Amsterdam í Hollandi 2001 og meistaragráðu í myndlist við Sandberg Institute í Amsterdam 2003. Heimir hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum víða um Evrópu og Bandaríkin. Hann var tilnefndur til De Volkskrant Beeldende Kunst Prijs í Hollandi 2006 og einnig til Carnegie-verðlaunanna í Svíþjóð 2011. Heimir hefur undanfarin ár búið og starfað í Los Angeles í Bandaríkjunum.


Jóna Hlíf Halldórsdóttir – Meira en þúsund orð

„Drifkrafturinn á bak við sýningar mínar er tilfinning fyrir viðfangsefnunum hverju sinni og orkan sem tengist þeim. Einstök verk hafa snúist um hvernig raunveruleikinn birtist í myndlist eða hvernig samfélagið bregst við myndlistinni.

Textaverk og tilraunir með efni hafa verið undirstaða verkanna undanfarin ár. Texti sem áferð, sem framsetning hugsana, sem hugmyndavaki við mótun samfélags.

Í nýlegum verkum hef ég verið að fást við kjarna, tíma og ímynd. Orð eða hugmyndir eru afbyggðar og þeim gefin ný merking í samspili við efnivið verkanna eða samhengi sýningarinnar.“

Jóna Hlíf (f. 1978) lauk MFA-gráðu frá GSA í Skotlandi 2007. Hún er fyrrverandi formaður SÍM og nú forstöðumaður Gerðarsafns.


Samsýning – Hverfandi landslag

Á sýningunni Hverfandi landslag taka íslenskir og finnskir listamenn höndum saman og sýna þæfð verk úr ull. Samvinnan hófst 2017 með sýningunni Northern Landscape í Jämsa, Finnlandi, sem haldin var í tilefni af 100 ára sjálfstæði landsins.

Viðfangsefnið er áhrif og afleiðingar loftslagsbreytinga. Landslag hverfur, landslag breytist og landslag tekur á sig nýja mynd. Náttúran hefur þegar breyst og enginn veit hvað bíður komandi kynslóða í þessum efnum.

Þátttakendur: Anna Þóra Karlsdóttir, Gerður Guðmundsdóttir, Hanna Pétursdóttir, Heidi Strand, Olga Bergljót Þorleifsdóttir, Sigríður Ólafsdóttir, Sigríður Elfa Sigurðardóttir, Aaltio Leena, Anne-Mari Ohra-aho, Eeva Piesala, Elina Saari, Kikka Jelisejeff, Leena Sipilä, Mari Hämäläinen, Mari Jalava, Marika Halme, Marjo Ritamäki, Rea Pelto-Uotila, Rutsuko Sakata, Sirpa Mäntylä, Tiina Mikkelä og Tupu Mentu. Sýningarstjóri: Anna Gunnarsdóttir.


Snorri Ásmundsson – Franskar á milli

Snorri Ásmundsson hefur stundum verið kallaður „óþekka barnið“ í íslenskri myndlist. Hann vinnur gjarnan með samfélagsleg „tabú“ eins og pólitík og trúarbrögð og hafa gjörningar hans löngum hreyft við samfélaginu. Snorri ögrar félagslegum gildum og skoðar takmörk náungans og sín eigin, en fylgist jafnframt grannt með viðbrögðum áhorfandans.

„Stundum er sagt við mig að ég sé „sósíal skúlptúr“. Ég skil fullyrðinguna mætavel því mörg verka minna eru speglun eða framlenging á þankagangi mínum og vangaveltum. Málverkið hefur skipað stóran sess í minni sköpun og fyrsta myndlistarsýningin sem ég hélt 1996 var málverkasýning. Þó ég sé kunnastur fyrir gjörningana mína er það málverkið sem er ódauðlegt og brauðfæðir mig. Það er æðisleg tilfinning að vera besti málari á Íslandi og í hópi fimm bestu málara í heiminum í dag.“

Snorri Ásmundsson flutti aftur til Akureyrar 2017, þar sem hann er fæddur og uppalinn, eftir að hafa dvalið og sinnt listsköpun til lengri í tíma í París, Vín, Mexíkó og Los Angeles.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó