NTC

Listamannaspjall og sýningalok 

Listamannaspjall og sýningalok 

Í tilefni af síðustu dögum sýningar Guðnýjar Kristmannsdóttur, Kveikja, í Listasafninu á Akureyri verður boðið upp á listamannaspjall með Guðnýju næstkomandi laugardag, 25. maí, kl. 15. Stjórnandi er Hlynur Hallsson, safnstjóri, og munu þau m.a. ræða um tilurð sýningarinnar, vinnuaðferðir og einstaka verk. Sýningunni lýkur næstkomandi sunnudag, 26, maí, en þá mun einnig ljúka einkasýningum Sigurðar Atla Sigurðssonar, Sena, og Alexanders Steig, Steinvölur Eyjafjarðar

Guðný Kristmannsdóttir
Kveikja
Salir 04 05

Djarfar og kröftugar pensilstrokur bera ekki vitni um hvatvísi í stórfelldum málverkum akureyrsku listakonunnar Guðnýjar Kristmannsdóttur (f. 1965), heldur birtast villtar og goðsagnakenndar skepnur upp úr löngu og meðvituðu ferli – hvort sem það er páfugl með strap-on eða skordýr í trylltum hlátri. Þykk upphleðsla lita, þunnar málningastrokur og hrár grunnur á yfirborði málverksins skapa kraftmiklar en yfirvegaðar hliðstæður sem blása lífi í skepnurnar. Skapandi og hrekkjótt; gleði þeirra er smitandi. Play Me – Kveikja er titill eins verksins. Athugið að þér er ekki endilega boðið til leiks, heldur er verið að lokka þig til þess að gefa lausan tauminn og ganga inn í heim nautnalegrar gleði listamannsins.


Alexander Steig
Steinvölur Eyjafjarðar
Salir 02 03

Í reglulegum gönguferðum sínum meðfram ánni Isar í München í Þýskalandi leitar listamaðurinn Alexander Steig (f. 1968) að steinvölum. Þar sem hann er menntaður listmálari og myndhöggvari er það frekar áhugi hans á skúlptúr en jarðfræði sem er hvatinn að þessari leit. Hann mun halda áfram að leita að steinvölum í fjörunni á Hjalteyri, en þangað hefur hann nú þegar komið tvisvar sinnum, 2008 og 2012.

Fyrir Listasafnið á Akureyri hefur hann upphugsað verkefnið eyja-fjörður-vala, sem er tileinkað steinvölum heima-fjarðar Akureyrar – Eyjafirði. Sem myndrænum leikmunum breytir hann steinvölunum miðlægt og skoðar með því skammlífi þeirra með vísun í „pússningu“ þeirra, mismunandi stærð og möguleika á skyggingu. Listamaðurinn varpar síðan tæknilega þessu stein-vídeói og sér þá það sem virðist vera kyrrstæð hreyfimynd; steinvölurnar snúast í raun um möndul sinn á 24 tíma fresti. Steig sýnir óskynjanlega hreyfimynd þar sem tvívídd „myndarinnar“ og þrívídd uppruna hennar teygja sig yfir í fjórðu víddina, tímann.

Sigurður Atli Sigurðsson
Sena
Salur 01

Orðið scenography þýðir bókstaflega að skrifa í rými og var upphaflega notað til að lýsa því þegar tvívíð teikning er yfirfærð í þrívíddarteikningu; senan er teiknuð upp. Verkin á sýningunni sýna viðmiðunarpunkta hugrænnar kortlagningar og hvernig manneskjan gerir tilraun til að skipuleggja umhverfi sitt bæði út frá hugmyndafræði og líkamlegum þörfum.

Sigurður Atli Sigurðsson (f. 1988) býr og starfar í Reykjavík. Verk hans takast á við byggingarefni samfélagsins, með því að skoða þau kerfi sem við búum okkur til og lifum eftir. Í verkum sínum vinnur Sigurður Atli með ýmiss konar prentefni, útgáfu og bókverk, auk þess að notast við grafíktækni til að vinna stórar myndaraðir. Sérþekking hans á þessu sviði hefur leitt hann til að halda sýningar, kenna og stýra sýningum víða um heim, nú nýlega á samtímalistasafninu í Tókýó og Listasafni Íslands.

Sambíó

UMMÆLI