Lionsklúbbur Akureyrar – Hafa styrkt félagasamtök um tæpar 17 milljónir króna

Stór hluti af félagsmönnum Lionsklúbbsins á Akureyri

Lionsklúbbur Akureyrar er hluti af alþjóðahreyfingu Lionsklúbba sem hefur það að markmiði að styðja við ýmis konar samfélags- og velferðarverkefni, heimafyrir og erlendis. Árið 2017 voru í hreyfingunni um 1,4 milljónir félaga í 46 þúsund klúbbum í 210 löndum.

Hafa styrkt félagasamtök um tæpar 17 milljónir króna

Klúbburinn er aðili að Hollvinasamtökum SAk og greiðir til þeirra árlega upphæð sem nemur félagsgjaldi fyrir hvern félaga klúbbsins. Nokkrar fleiri stofnanir hafa notið framlaga frá klúbbnum og félagar í klúbbnum hafa styrkt Sumarbúðirnar við Ástjörn með vinnuframlagi í tugi ára. Framlög klúbbsins til fyrrnefndra verkefna hafa numið um 16,4 milljónum króna frá árinu 2006.

Söfnuðu fyrir fíkniefnaleitarhundi

Klúbburinn hefur átt samstarf við Lionsklúbbinn Vitaðsgjafa í Eyjafjarðarsveit um fjáröflun til kaupa á fíkniefnaleitarhundi fyrir lögregluna á Akureyri og til stuðnings SAk. Fjár til þessara verkefna var aflað með því að efna til „Hagyrðingamóta“ sem nutu mikilla vinsælda. Mót sem haldið var haustið 2015 skilaði t.d. rúmum tveimur milljónum króna til SAk.

Stuðningur við starfsemi vistheimilisins Sólborgar eitt stærsta verkefni félagsins

Árið 1962 var hagnaður af dansleik settur í sjóð til byggingar skóla og heimilis fyrir fólk með þroskahömlun, sem síðan varð Vistheimilið Sólborg. Heimilið tók til starfa árið 1969 og allt fram á níunda áratug síðustu aldar var stuðningur við starfsemi Sólborgar stærsta einstaka verkefni klúbbsins þótt ýmsar aðrar stofnanir og félög nytu einnig stuðnings hans.

Gengu hús í hús og seldu blóm og perur

Áður fyrr voru perusala og blómasala á konudaginn lengi fastar fjáröflunarleiðir. Auk þess voru haldnir dansleikir, bingó, söngskemmtanir og málverkauppboð svo eitthvað sé nefnt.  Fjáröflunaraðferðir eru nú aðrar og ekki lengur gengið hús úr húsi og boðnar til sölu perur eða blómvendir. Ástæða þess var sú fyrst og fremst að félagar klúbbsins vildu gjarna vera lausir við slíka sölumennsku og augljóslega fældi hún á tímabili menn frá að ganga í klúbbinn og stóð þannig viðgangi hans fyrir þrifum. Nú felst fjáröflunin í sölu jóladagatals, sem nokkarar verslanir í bænum annast, og útgáfu almenns  dagatals. Sú útgáfa stendur undir sér með birtingu einkennismerkja fyrirtækja sem greiða fast gjald fyrir birtinguna þeirra. Allt það fé sem kemur inn fyrir sölu dagatalsins er því hreinn hagnaður.

Styrkja verkefni í þróunarlöndum
Klúbburinn hefur til fjölda ára lagt fé til Alþjóða hjálparsjóðs Lions sem fram til þessa hefur árlega varið 30-40 milljónum Bandaríkjadala til ýmiss konar verkefna í þróunarlöndum víða um heim s.s. sjónverndarverkefna, til bólusetninga gegn farsóttum o.fl. Íslenski hjálparsjóðurinn sem stofnaður var til að sinna stærri verkefnum innanlands hefur einnig notið velvilja klúbbfélaga.

Eins og margir aðrir klúbbar má Lionsklúbbur Akureyrar muna sinn fífil fegri þegar kemur að fjölda félaga þar sem félagarnir eru nú aðeins 18. Þrátt fyrir það hefur klúbbfélögum tekist á hverju ári að afla verulegra fjármuna til ýmissa velferðarmála með góðum stuðningi almennings sem ávallt hefur verið tilbúinn til að styrkja fjáraflanir þeirra. Sama hefur gilt um fyrirtæki og stofnanir. Það er sá stuðningur sem gerir klúbbnum mögulegt að hjálpa þeim sem hjálpar eru þurfi. Fyrir það ber að þakka af heilum hug.

Greinin birtist upphaflega í fréttablaðinu Norðurlandi 27. mars undir yfirskriftinni: Félagið mitt. Félagið mitt er þáttur í Norðurlandi þar sem ýmis frjáls félagasamtök á Akureyri og nágrenni eru kynnt og með því  er markmiðið að kynna það flotta og frábæra sjálfboðastarf sem mörg þessara félaga vinna og fær yfirleitt ekki næga umfjöllun í fjölmiðlum.

 

Nafn félags: Lionsklúbbur Akureyrar
Hvenær var félagið stofnað? 10. mars 1956
Hver er fjöldi félagsmanna? 18
Hvert er hlutverk eða starfsemi félagsins? Að veita ýmsum stofnunum og félagasamtökum stuðning, bæði heima fyrir og erlendis.
Hvernig er hægt að gerast félagsmaður? Sá sem hefur áhuga á að gerast félagi getur leitað til aðalskrifstofu Lions á Íslandi (www.lions.isog fengið þar upplýsingar um nöfn stjórnarmanna og haft samband.
Kostar eitthvað að taka þátt í starfseminni?
Árgjald er 42.000 kr.
Hver eru ykkar helstu verkefni á starfsárinu? Lionsklúbbur Akureyrar hefur ávallt beint kröftum sínum að stuðningi við ýmsar stofnanir og félagssamtök. Þar má nefna félög eins og Íþróttafélagið Akur og Íþróttafélagið Eik, Mæðrastyrksnefnd og Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis. Þessi félög hafa notið árlegs stuðnings mörg undanfarin ár. Nokkur önnur félög hafa fengið styrk einu sinni eða oftar á sama tímabili. Á lista yfir stofnanir sem klúbburinn hefur styrkt má finna nöfn eins Heilsugæslustöðina, sambýli aldraðra, Fjölskyldudeild Akureyrarbæjar, Kristnesspítala, leikskóla, Sjúkrahúsið á Akureyri o.fl.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó