Lífsnautnir Hreppstjórans, gluggainnsetning í tilefni af Mottumars 

Lífsnautnir Hreppstjórans, gluggainnsetning í tilefni af Mottumars 

Í tilefni af Mottumars, árvekniátaks Krabbameinsfélagsins tileinkað körlum og krabbameinum má sjá gluggainnsetninguna Lífsnautnir hreppstjórans í Hafnarstræti 88. Þar í kjallaranum er vinnustofa myndlistarkonunnar Brynju Harðardóttur Tveiten en innsetningin er hugverk hennar og systur hennar Áslaugar sem rekur skrautmuna- og vintage-söluna ´Fröken Blómfríður´. Tilgangur innsetningarinnar er að heiðra og vekja athygli á Mottumars sem leggur að þessu sinni áherslu á mikilvægi hreyfingar sem forvörn gegn krabbameinum. Innsetningin er styrkt af Menningarsjóði Akureyrarbæjar.

Þær systur hvetja vegfarendur að kíkja inn um gluggann og leggja Mottumars lið, t.d. á vefverslun Krabbameinsfélagsins. Þær vonast til að innsetningin skemmti fólki, skapi gleði, nostalgíu, góðar umræður og ögn testósterónþrungin hughrif. Þær vilja að glugginn segi sögu hvort sem hún verði til í hugum áhorfenda eða sé innblásinn af þeirra upplifun:

Árið er óskilgreint. Litið er inn í híbýli hreppstjórans sem hefur brugðið sér inn í búr að sækja sparibollana. Von er á gestum áður en haldið er á dansleik og borðið svignar undan kræsingum. Eldur logar í kamínu og kaffiilmur blandast við milda sveitalyktina. Hreppstjórinn er myndarlegur, prýddur tignarlegu skeggi, ókvæntur og þykir gott mannsefni. Hann er úrræðagóður, glaðvær, tón- og bókelskur. Þegar hann hlær drynur í öllu og hann kemst auðveldlega við þegar eitthvað hrífur hann eða hryggir. Hreppstjórinn er reglumaður á mat og drykk, stundar gönguferðir, sund og Müllersæfingar og er mikill áhugamaður um grænmetis- og trjárækt. Sumum finnst hann svolítið sérvitur en taka hann sér til fyrirmyndar enda er hann lífsnautnamaður sem hefur áunnið sér virðingu samferðafólks síns með myndarskap sínum og hreysti.

Innsetningin stendur út marsmánuð.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó