Handboltakonan Rut Jónsdóttir sópaði að sér verðlaunum á verðlaunahátíð HSÍ í dag. Rut var frábær með Íslandsmeisturum KA/Þór á nýafstöðnu Íslandsmóti.
Rut var valin besti leikmaður Olís-deildarinnar og besti sóknarmaðurinn. Þá var hún valin best af þjálfurum í deildinni. Rut spjallaði við mbl.is eftir verðlaunaafhendinguna og var eðlilega kát.
„Við erum mörg frá Akureyri sem vorum verðlaunuð og ótrúlega gaman að vera hluti af þessu. Þetta er mjög sætt eftir frábært tímabil. Ég er mjög ánægð og stolt af þessu enda er skemmtilegt að fá viðurkenningu fyrir eitthvað sem maður leggur mikinn tíma í,“ segir Rut á mbl.is.
Rut flutti heim til Íslands fyrir veturinn eftir mörg ár í Danmörku. Hún segist vera rosaánægð með þá ákvörðun en unnusti hennar, Ólafur Gústafsson, spilar handbolta með karlaliði KA.
„Þetta er frábrugðið því sem við höfum kynnst áður en svo lengi sem við höfum gaman að boltanum og fjölskyldunni líður vel þá er þetta frábært. Við verðum áfram á Akureyri næsta vetur. Það er frágengið en eftir það vitum við ekki hvað við gerum. Okkur líður vel á Akureyri en þegar maður er með barn þá hugsar maður um fleira en sjálfan sig.“
Ítarlegt viðtal við Rut má finna á vef mbl.is með því að smella hér.
UMMÆLI