Olga Naumenkova fluttist frá Lettlandi til Dalvíkur fyrir tuttugu árum og hefur síðan þá starfað hjá Samherja á Dalvík. Olga viðraði í vetur þá hugmynd að jólatréð í anddyri fiskvinnsluhússins yrði skreytt samkvæmt lettneskum sið, sem snýst um að fólk hengir skraut á tréð og merkir með sínu nafni. Skemmst er frá því að segja að tillagan féll í góðan jarðveg og starfsfólk Samherja á Dalvík hefur tekið þátt í þessum skemmtilega og hlýlega sið.
Fannst tilvalið að innleiða lettneskan sið á Dalvík
„ Ég nefndi þetta við Ragnheiði Rut, sem er formaður starfsmannafélagsins og hún tók strax vel í þessa hugmynd. Eftir að tréð var sett upp voru skilaboð send til starfsfólksins um að taka þátt. Jólakúlum hefur síðan fjölgað dag frá degi og tugir jólakúla með nöfnum starfsfólksins prýða nú hið veglega jólatré. Heima í Lettlandi er þetta algengt í skólum og á vinnustöðum og mér fannst tilvalið að innleiða þetta hérna á Dalvík,“ segir Olga.
Sameiningartákn
„ Með þessu sameinast fólk um að skreyta tréð, sem er fallegt og táknrænt á svo margan hátt. Í Lettlandi býr fólk sem á rætur sínar að rekja til margra landa og svipaða sögu er að segja um minn vinnustað hérna á Dalvík. Ég er afskaplega þakklát fyrir þessar góðu viðtökur og svo höldum við vonandi áfram á næsta ári.“
Mikill munur milli landa
Olga segir að umtalsverður munur sé á jólasiðum og venjum á Íslandi og Lettlandi.
„ Já, munurinn er í raun ansi mikill, þótt boðskapur jólanna sé auðvitað hinn sami. Á Íslandi er miklu meira um skreytingar með ljósum og meira er gert fyrir börnin. Hérna sameinast fjölskyldurnar með ýmsum hætti og meira er um alls kyns skemmtanir. Ég man eftir fyrstu jólunum okkar á Dalvík, þá bauð fólk okkur í heimsókn og vildi greinilega að við upplifðum ekta íslensk jól. Síðan þá höfum við tileinkað okkur ýmsa íslenska jólasiði en varðveitum líka hefðir frá Lettlandi.“
Mikið um að vera hjá starfsmannafélaginu
Ragnheiður Rut Friðgeirsdóttir formaður starfsmannafélagsins Fjörfisks segir að félagsstarfið sé gróskumikið á þessum árstíma.
„Já, það er óhætt að segja það. Við héldum litlu-jól með tilheyrandi borðhaldi, fórum saman á jólatónleika og í leikhús með börnin. Á milli jóla og nýárs verður svo heljarinnar jólatrésskemmtun, þannig að það er heilmikið um að vera. Vinnustaðurinn er fallega skreyttur svo hérna eru allir í sannkölluðu jólaskapi.“
Frétt er af samherji.is
UMMÆLI